Samningur milli Íslands og Georgíu hefur verið undirritaður en með honum er ætlað að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu. Samningurinn nær til tekjuskatta.
Undirritunin fór fram í georgísku höfuðborginni Tblisi í dag og undirritaði Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins, samninginn fyrir hönd Íslands en fjármálaráðherra Georgíu, Nodar Khaduri, fyrir hönd Georgíu.
Í frétt fjármálaráðuneytisins segir að helstu efnisatriði samningsins séu þau að samið var um 5 prósneta afdráttarskatt af arði ef félagið sem móttekur arðinn á að minnsta kosti 25 prósent í félaginu sem greiðir arðinn, en í öðrum tilvikum er 10 prósent afdráttarskattur. „Þá var samið um 5% afdráttarskatt af vöxtum og þóknunum. Samkvæmt samningnum er frádráttaraðferð (credit method) beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun og einnig er að finna ákvæði um aðstoð við innheimtu skatta.
Framundan er vinna að fullgildingu samningsins í báðum samningsríkjum. Vonast er til að samningurinn geti komið til framkvæmda 1. janúar 2016.“
Tvísköttunarsamningur við Georgíu undirritaður
