Þetta var ljóst eftir 1-1 jafntefli Juventus og Real Madrid á Santiago Bernabeu í kvöld. Ítölsku meistararnir fóru áfram, samanlagt 3-2, en þetta er í fyrsta sinn síðan 2003 sem Juventus kemst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þá tapaði liðið fyrir AC Milan í vítaspyrnukeppni.
Barcelona sló Bayern München út, samanlagt 5-3, og komust þar með í úrslitaleikinn í áttunda sinn í sögu félagsins.
Í úrslitaleiknum mætir Luis Suárez, framherji Barcelona, því tveimur fornum fjendum sínum; Patrice Evra og Giorgio Chiellini sem báðir leika með Juventus.
Í desember 2011 var Suárez dæmdur í átta leikja bann fyrir kynþáttaníð í garð Evra í leik Liverpool og Manchester United 15. október sama ár. Fyrir seinni leik liðanna á þessari leiktíð neitaði Suárez svo að taka í hönd Evra.
Síðasta sumar beit Suárez, eins og frægt er, Chiellini í öxlina í leik Úrúgvæ og Ítalíu á HM í Brasilíu. Þetta var í þriðja skiptið sem Suárez gerðist sekur um að bíta mótherja á vellinum.
Framherjinn fékk í kjölfarið níu mánaða bann frá landsliðsfótbolta. Suárez bað Chiellini afsökunar á bitinu og sá síðarnefndi talaði í kjölfarið um að stytta ætti bann Úrúgvæans.
Það verður því athyglisvert að sjá hvað gerist í Berlín laugardaginn 6. júní, hvort Suárez haldi sig á mottunni og láti skapið ekki hlaupa með sig í gönur í návist þessara tveggja fornu fjenda.

My apologies to Chiellini: pic.twitter.com/CvfkkjxzlM
— Luis Suarez (@LuisSuarez9) June 30, 2014