Fótbolti

Víkingar sæmdu Bogdan æðsta heiðursmerki Víkings | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Meira en þúsund manns klappa hér fyrir klökkum Bogdan Kowalczyk.
Meira en þúsund manns klappa hér fyrir klökkum Bogdan Kowalczyk. Mynd/Fésbókarsíða Víkinga
Það var mögnuð stemming í Víkinni í gærkvöldi þegar karlalið Víkings steig einu skrefi nær því að komast aftur upp í úrvalsdeild karla með sigri á Fjölni í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi umspilsins um hvort liðið spilar meðal þeirra bestu á næsta keppnistímabili.

Víkin var troðfull á leiknum í gær en rúmlega þúsund áhorfendur fylltu húsið og þarna var líklega sett nýtt áhorfendamet í Víkinni samkvæmt umfjöllun á fésbókarsíðu handknattleiksdeildar félagsins.

Bogdan Kowalczyk, fyrrum þjálfari Víkinga, var heiðursgestur á leiknum og heilsaði upp á leikmenn fyrir leikinn. Bogdan gerði Víkingsliðið fjórum sinnum að Íslandsmeisturum og tvisvar sinnum að bikarmeisturum á fimm tímabilum sínum með liðið frá 1978 til 1983.

Víkingar sæmdu Bogdan æðsta heiðursmerki Víkings á sérstakri samkomu fyrir leikinn þar sem margir þekktir kappar Víkings voru saman komnir. Það var magnað augnablik þegar yfir þúsund áhorfendur stóðu á fætur og hylltu Bogdan áður en leikurinn hófst.

Bogdan Kowalczyk breytti miklu fyrir Víkinga á sínum tíma en undir hans stjórn varð félagið að stórveldi í handboltanum. Bogdan tók við íslenska landsliðinu eftir að hann þjálfaði Víkings.

Bogdan Kowalczyk var staddur hér á landi til að fá sérstök heiðursverðlaun í tilefni af vali á besta handboltaliði sögunnar en Víkingslið hans frá 1980 var valið besta lið allra tíma.

Hér fyrir neðan má sjá glæsilega umfjöllun Víkinga um leikinn á fésbókarsíðu sinni  í gær sem og en þar er hægt að finna flotta myndir frá kvöldinu. Nokkrar þeirra má líka finna hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×