Aron Pálmarsson er klár í bátana fyrir leikinn gegn Serbíu í Höllinni í kvöld.
Þetta er fyrri leikur liðanna í riðlakeppni EM en seinni leikurinn fer fram ytra í byrjun júní. Serbar hafa byrjað undankeppnina vel og unnið fyrstu tvo leiki sína á meðan Ísland vann Ísrael en tapaði óvænt gegn Svartfjallalandi.
„Þetta eru erfiðir leikir og mjög mikilvægir líka. Við þurfum klárlega að ná í tvo punkta gegn sterku liði Serba," segir Aron.
„Ég er kannski ekki beint hræddur við Serbana en þetta er klárlega stórlið með frábæra leikmenn í hverri stöðu. Það er ekkert vanmat eða svoleiðis kjaftæði hjá okkur. þetta verða bara tveir hörkuleikir.
„Þeir eru með sterkan og erfiðan heimavöll en ég vil líka fulla höll í kvöld. Ég veit að við erum klárir."
Viðtalið við Aron má sjá í spilaranum hér að ofan.
