Innlent

Aron nýr formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Atli Ísleifsson skrifar
Aron Ólafsson er að ljúka grunn­námi í ferðamálafræði sem aðalgrein og stjórnun og stefnumótun sem aukagrein við HÍ.
Aron Ólafsson er að ljúka grunn­námi í ferðamálafræði sem aðalgrein og stjórnun og stefnumótun sem aukagrein við HÍ. Mynd/stúdentaráð
Aron Ólafsson hef­ur verið kjör­inn formaður Stúd­entaráðs Há­skóla Íslands. Hann er odd­viti Vöku, fé­lags lýðræðissinnaðra stúd­enta, sem vann meiri­hluta í kosn­ing­um til Stúd­entaráðs í fe­brú­ar.

Aron tekur við af Ísaki Rúnarssyni sem hefur gegnt embættinu síðastliðið ár.

Í tilkynningu frá Stúdentaráði segir að Aron Ólafsson sé að ljúka grunn­námi í ferðamálafræði sem aðalgrein og stjórnun og stefnumótun sem aukagrein við HÍ. Á síðastliðnum árum hefur Aron setið í sviðsstjórn Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, deildarstjórn Líf- og umhverfis, námsbraut Land- og ferðamálafræði og var formaður Fjallsins starfsárið 2013-2014.

„Aron telur mik­il­vægt að á starfs­ár­inu muni Stúd­entaráð halda áfram að berj­ast fyr­ir nútímavæðingu kennslu og beita sér fyrir frekari framþróun á kennsluháttum. Einnig leggur Aron áherslu á að Háskólinn efli tengingu við atvinnulífið. Mikilvægt er að nemendur fái að spreyta sig á raunhæfum verkefnum fyrir atvinnulífið. Stúd­entaráð mun halda áfram að berj­ast fyr­ir auknu fjár­fram­lagi til há­skól­ans svo tryggt verði að greitt sé með öll­um nem­end­um há­skól­ans. Aron legg­ur áherslu á að Há­skóli Íslands verði góður kost­ur fyr­ir alla þá sem hafa áhuga á há­skóla­námi í hæsta gæðaflokki.

Ásamt Aroni þá var Áslaug Björnsdóttir kjörin varaformaður Stúdentaráðs og Tryggvi Másson hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs. Þar stýrir hann réttindaskrifstofu stúdenta sem starfar við ráðgjöf til nemenda gagnvart þeim ágreiningsatriðum sem geta komið upp milli nemenda og starfsmanna,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×