Fótbolti

Fjögur frábær mörk og öruggur sigur Porto-liðsins | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá Porto-mönnum í kvöld.
Það var gaman hjá Porto-mönnum í kvöld. Vísir/AFP
Porto tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld með sannfærandi 4-0 heimasigri á svissneska liðinu Basel. Porto vann samanlagt 5-1 og er komið í átta liða úrslitin í fyrsta sinn síðan 2009.

Porto skoraði tvö mörk beint úr aukaspyrnu í leiknum en það var þó ekki sami maðurinn á ferðinni. Yacine Brahimi skoraði fyrra markið og Carlos Casemiro það síðara.

Basel endaði leikinn manni færri eftir að Walter Samuel fékk sitt annað gula spjald í uppbótartíma leiksins.

Fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli eftir að Porto-menn jöfnuðu ellefu mínútum fyrir leikslok.

Portúgalinn Paulo Sousa er þjálfari Basel, gerði sér vonir um að slá út landa sína í kvöld en hann þurfti að yfirgefa heimalandið með skottið á milli lappanna.

Yacine Brahimi skoraði fyrsta mark Porto beint úr aukaspyrnu á 14. mínútu og lagði síðan upp annað markið fyrir Héctor Herrera eftir aðeins tveggja mínútna leik í seinni hálfleik.

Carlos Casemiro gerði endanlega út um leikinn þegar hann skoraði þriðja markið beint úr aukaspyrnu á 56. mínútu.

Porto-menn voru ekki hætti og Vincent Aboubakar skoraði glæsilegt mark á 76. mínútu leiksins.

Það er hægt að sjá öll þessu fjögur glæsilegu mörk hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×