Fótbolti

Fábregas lofar að Chelsea leggi ekki rútunni í kvöld

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Cesc Fábregas vill skora í kvöld - ekki bara verjast.
Cesc Fábregas vill skora í kvöld - ekki bara verjast. vísir/getty
Chelsea og Paris Saint-Germain mætast í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19.30.

Lundúnarliðið er í aðeins betri málum eftir fyrri leikinn í París þar sem liðin skildu jöfn, 1-1. Chelsea kemst því áfram með markalausu jafntefli.

Svona staða hefur oft hentað José Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, ágætlega í gegnum tíðina. Hann hefur margsinnis varist meistaralega í Meistaradeildinni og komist áfram með herkjum.

„Okkur langar að komast áfram,“ segir Cesc Fábregas, miðjumaður Chelsea, en Spánverjinn heitir því að Chelsea-liðið muni ekki bara verjast í kvöld og halda fengnum hlut. Rútunni verður ekki lagt.

„Við munum ekki sitja til baka og bíða eftir þeim. Við ætlum að reyna að skapa okkur færi til að skora,“ segir Fábregas.

Chelsea er búið að vinna deildabikarinn á leiktíðinni og er með örugga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Samt sem áður finnst Fábregas vanta meira drápseðli í liðið.

„Ef það er eitthvað sem okkur skortir er það viljinn til að afgreiða leiki sem við getum afgreitt. Það hafa komið upp stöður þar sem við getum drepið leiki en ekki gert það og leyft öðrum leikmönnum að refsa okkur,“ segir Cesc Fábregas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×