Fótbolti

Ronaldo með miklu betri vítanýtingu en Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi gaf Manchester City smá von með því að klikka á víti í uppbótartíma í fyrri leik Barcelona og Manchester City í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta í gær.

Joe Hart varði vítið frá Messi í gær en hann skutlaði sér til vinstri eins og þeir átta síðustu sem hafa varið frá Messi. Þessi staðreynd kom fram í frétt á BBC.

Þetta er samt langt frá því að vera fyrsta vítið sem Messi klúðrar með Barcelona eða argentínska landsliðinu en hann hefur sem dæmi aðeins náð að nýta fimm af síðustu tíu vítaspyrnum sínum með félagsliði og landsliði.

Messi hefur klikkað á þremur vítum í Meistaradeildinni en aðeins tveir hafa klikkað á fleirum eða þeir Thierry Henry (5) og Ruud Van Nistelrooy (4).

Messi hefur samtals nýtt 46 af 59 vítaspyrnum sínum með Barcelona samkvæmt upplýsingum frá spænska tölfræðitröllinu Alexis Martín-Tamayo en það gerir 77,9 prósent vítanýtingu.

Messi er svo sem með ágæta vítanýtingu en erkióvinur hans í Madrid er þó með mun betri vítanýtingu en Argentínumaðurinn.

Cristiano Ronaldo hefur "bara" klikkað á 5 af 59 vítum sínum með Real Madrid og er því með mun betri vítanýtingu en Messi eða 91,5 prósent.

Það er hægt að sjá vítaspyrnuna hans Messi frá því í gær með því að smella á spilarann hér fyrir ofan eða skoða myndbandið hér fyrir neðan.

Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×