Bandaríski tæknirisinn Apple hefur gefið út tölur yfir hagnað á fyrsta ársfjórðungi efnahagsárs fyrirtækisins, frá 27. september til 27. desember, og er hann átján milljarðar bandaríkjadala.
Það er mesti hagnaður skráðs félags í sögunni en fyrra metið átti olíurisinn ExxonMobil sem sett var árið 2012, að því er greiningarfyrirtækið Standard&Poors segir.
Það sem skýrir þennan gríðarlega hagnað er metsala á nýjustu gerðinni af iPhone símanum en Apple seldi tæpar 75 milljónir slíkra tækja á þremur síðustu mánuðum síðasta árs og fór salan töluvert fram úr björtustu vonum sérfræðinga.

