Þessi lið áttust við bæði í lokaúrslitum deildarinnar í vor sem og bikarúrslitaleiknum fyrir tæpu ári síðan.
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var fyrr í dag valinn besti þjálfari fyrri hluta tímabilsins í Domino's-deild kvenna en lið hans trónir á toppnum með 26 stig af 28 mögulegum, fjórum stigum á undan Keflavík og Haukum.

Þrátt fyrir gott gengi fyrir áramót veit hann að leikmenn hans eigi meira inni en þeir hafi sýnt. „Þær vita það sjálfar að þær geta betur og okkur finnst að við eigum talsvert inni. Við erum að spila á fáum leikmönnum og þurfum að ná því allra besta fram úr þeim öllum til að ná árangri.“
Snæfell varð Íslandsmeistari kvenna í vor í fyrsta sinn í sögu félagsins og varð þar að auki deildarmeistari og meistari meistaranna. Liðið vann þar að auki 27 af 28 deildarleikjum sínum á árinu 2014.

„Svo misstum við mjög sterka leikmenn í sumar en María [Björnsdóttir] og Gunnhildur [Gunnarsdóttir] hafa komið mjög sterkar inn sem og útlendingurinn okkar. Ég er afar stoltur af því hvernig þetta hefur virkað.“
Hann reiknar auðvitað með því að Haukar mæti grimmir til leiks í kvöld enda á Snæfell möguleika á að auka muninn á milli liðanna í sex stig. „Þar að auki eru Grindavík og Valur ekki langt undan í næstu sætum á eftir. Það eru margir leikir á tímabilinu en hver þeirra telur þegar deildin er jöfn og spennandi.“
Leikur liðanna hefst klukkan 19.30 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.