Skoðun

Komum þeim frá!

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar

Reglulega safnast fólk saman á Austurvelli því ríkisstjórnin fer svo illa með umboð sitt. Verk ráðherranna einkennast af lélegum undirbúningi, flausturslegum vinnubrögðum og frekjulegri framsetningu.



Tökum nokkur dæmi:



-Fjármálaráðherra lækkar skatta á stóreignafólk og útgerðarmenn en svíkur loforð um hækkun elli- og örorkulífeyris og hækkar matarskatt.



-Heilbrigðisráðherra eykur álögur á sjúklinga um nærri tvo milljarða og stendur ráðalaus gagnvart fyrsta læknaverkfalli sögunnar á Íslandi.



-Menntamálaráðherra meinar fólki yfir 25 ára aldri framhaldsskólavist, hækkar bókaskatt og vinnur skemmdarverk á Ríkisútvarpinu.



-Umhverfisráðherra ætlaði að afturkalla náttúruverndarlög til að koma í veg fyrir að þau tækju gildi.



-Utanríkisráðherra slengdi fram tillögu um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Komið var í veg fyrir það, a.m.k. tímabundið.



-Félags- og húsnæðismálaráðherra boðar fjölskyldustefnu en afturkallar lengingu fæðingarorlofsins, dregur lappirnar í málefnum fatlaðra og skilar auðu í húsnæðismálum.



-Iðnaðarráðherra hefur eiginlega ekkert gert ef frá er talin framlagning frumvarps um náttúrupassa sem er klúður frá upphafi til enda. 



-Sjávarútvegsráðherra er erindreki útgerðarmanna – ekki almennings. Þess á milli vill hann flytja stofnanir á milli landshluta – af því bara.



-Um störf fv. innanríkisráðherra má lesa í væntanlegu áliti Umboðsmanns Alþingis.



-Forsætisráðherra rífst og skammast við allt og alla. Hann útdeilir styrkjum með sms-um, sendir fjölmiðlum tóninn, vænir alþingismenn um lygar og vill fá geðþóttaheimild til að flytja ríkisstofnanir milli landshluta. Hann boðar róttæka rökhyggju sem virðist einna helst byggja á því að allir sem gagnrýna hann séu kjánar með annarleg markmið. Þjóðmenningarráðherranum virðist því líða best í útlöndum.



Ríkisstjórnin er rúin trausti, fullkomlega skilningssljó og sendir hrokafull skilaboð til launafólks. Getum við sameinast um að nýársheitið fyrir árið 2015 verði að koma þeim frá?




Skoðun

Sjá meira


×