Takk fyrir mig! Teitur Guðmundsson skrifar 26. nóvember 2014 07:00 Þegar ég byrjaði að skrifa í Fréttablaðið fyrir tæpum 3 árum þá vissi ég að heilbrigðismál brenna á flestum okkar á einn eða annan hátt. Auðvitað höfum við mismunandi áherslur og hinn mikli aldursmunur sem er á lesendum blaðsins sýnir glögglega að það nær til mjög breiðs hóps. Mér fannst vanta að læknar tækju sig til og töluðu til fólksins á fræðandi hátt, þannig að það skildist. Ég hef fengið að heyra það að greinar mínar séu almenningi almennt ekki torlesnar og ritaðar á mannamáli, sem er gott því vonandi ná þær þannig því sem til var ætlast, að vekja umræðu og fræða. Þá hef ég fengið hrós fyrir skrifin sömuleiðis frá kollegum mínum í læknastétt og hefur mér þótt vænt um það, þó margir hafi undrast eljuna að nenna þessu í hverri viku. Einhvern tímann var ég spurður að því hvers vegna ég hefði tekið mig til við þetta og svarið var einfaldlega að mig langaði til þess. Það voru ekki aðrir áhrifavaldar og sannarlega ekki að þetta væri hugsað sem stökkpallur út í pólitík eins og nokkrir hafa forvitnast um í gegnum liðin ár. Ég get þó upplýst um það að ég hafi verið beðinn að taka þátt bæði á sveitarstjórnarstiginu sem og í landsmálum af fleiri en einum flokki, en það hefur ekki höfðað til mín. Þegar ég lagði af stað í þessa vegferð þá hafði ég nokkur markmið, í fyrsta lagi að ég myndi hafa algera stjórn á því hvað ég fjallaði um hverju sinni, þó ég hafi fengið býsna margar ábendingar um skemmtileg viðfangsefni og ritað um sum þeirra þá hef ég alltaf litið á þetta sem mjög mikilvægt atriði. Ég hef reynt að nálgast sjúkdóma og viðfangsefnin á þann hátt að tengja þau daglegu lífi fólks og fara ekki um of í smáatriði. Margt af því hefur verið um stærstu og alvarlegustu heilbrigðisvandamál okkar í dag eins og offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, krabbamein og þannig mætti lengi telja. Ég hef líka ritað um kynlíf og samlíf, hamingjuna, prump og hægðatruflanir svo eitthvað sé nefnt sem og blátt þvag. En svona að öllu gamni slepptu hafa þessir pistlar iðulega átt að hafa þann tilgang að fræða og benda á mögulegar lausnir. Á sama tíma og þessar greinar hafa birst í Fréttablaðinu hefur mér verið vel tekið í útvarpinu, en ég hef mætt þangað vikulega eða verið í símasambandi til að ræða pistil gærdagsins um nokkuð langt skeið. Kann ég félögum mínum í Bítinu á Bylgjunni miklar þakkir fyrir góða viðkynningu og samveru á liðnum árum. Einhver sagði við mig að ég væri líklega eini læknirinn hérlendis sem hefði verið í öllum tegundum fjölmiðla samtímis, en stutt viðvera í sjónvarpi á síðasta hausti var skemmtileg tilbreyting. Annað markmið með því að skrifa var að koma skilaboðum áleiðis um forvarnir sem ég tel að séu grundvallaratriði í tengslum við allt heilbrigði og þróun sjúkdóma. Þá einna helst að hvetja til og stuðla að andlegri vellíðan sem líklega er mikilvægari en flest annað. Af nógu hefur verið að taka og er ljóst að ég gæti skrifað í mörg ár til viðbótar um heilsu, sjúkdóma og lífsstíl því þar eru óþrjótandi efnistök. Nú kynnu sumir að halda að mér hafi verið sagt upp eða viðlíka á Fréttablaðinu, en svo er alls ekki. Fyrir þá sem ekki vita, þá kynnu þeir að undrast það að ég hef ekki verið með neinn samning og hef ekki þegið eina krónu í þóknun fyrir skrif eða viðveru í útvarpi hingað til, heldur hefur þetta verið gert af einskærum áhuga. Það hlýjar manni þess vegna enn frekar um hjartaræturnar þegar ókunnugt fólk hrósar manni fyrir skrifin eða segist alltaf lesa pistlana á þriðjudögum. Ég hef verið afar þakklátur fyrir það og kann öllum þeim bestu þakkir sem hafa fylgt mér þessi tæpu 3 ár. Þessum kafla er lokið í bili, ég neita því ekki að það er tregablandið, en það var líka markmið í sjálfu sér að geta tekið þessa ákvörðun um að hætta þegar ég vildi og á mínum forsendum. Og nei, ég er ekki veikur eða að fara af landi brott. Það kemur alltaf eitthvað annað í staðinn, til dæmis að klára bókina sem ég er byrjaður á, möguleikarnir eru ansi margir. Næsta verkefni verður hið minnsta að bretta enn frekar upp ermar og stuðla að bættu heilbrigðiskerfi sem áhuga- og fagmaður, ekki veitir af! En ég ætla að byrja á því að halda upp á afmælið mitt í dag. Takk kærlega fyrir mig og góðar stundir! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Teitur Guðmundsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Þegar ég byrjaði að skrifa í Fréttablaðið fyrir tæpum 3 árum þá vissi ég að heilbrigðismál brenna á flestum okkar á einn eða annan hátt. Auðvitað höfum við mismunandi áherslur og hinn mikli aldursmunur sem er á lesendum blaðsins sýnir glögglega að það nær til mjög breiðs hóps. Mér fannst vanta að læknar tækju sig til og töluðu til fólksins á fræðandi hátt, þannig að það skildist. Ég hef fengið að heyra það að greinar mínar séu almenningi almennt ekki torlesnar og ritaðar á mannamáli, sem er gott því vonandi ná þær þannig því sem til var ætlast, að vekja umræðu og fræða. Þá hef ég fengið hrós fyrir skrifin sömuleiðis frá kollegum mínum í læknastétt og hefur mér þótt vænt um það, þó margir hafi undrast eljuna að nenna þessu í hverri viku. Einhvern tímann var ég spurður að því hvers vegna ég hefði tekið mig til við þetta og svarið var einfaldlega að mig langaði til þess. Það voru ekki aðrir áhrifavaldar og sannarlega ekki að þetta væri hugsað sem stökkpallur út í pólitík eins og nokkrir hafa forvitnast um í gegnum liðin ár. Ég get þó upplýst um það að ég hafi verið beðinn að taka þátt bæði á sveitarstjórnarstiginu sem og í landsmálum af fleiri en einum flokki, en það hefur ekki höfðað til mín. Þegar ég lagði af stað í þessa vegferð þá hafði ég nokkur markmið, í fyrsta lagi að ég myndi hafa algera stjórn á því hvað ég fjallaði um hverju sinni, þó ég hafi fengið býsna margar ábendingar um skemmtileg viðfangsefni og ritað um sum þeirra þá hef ég alltaf litið á þetta sem mjög mikilvægt atriði. Ég hef reynt að nálgast sjúkdóma og viðfangsefnin á þann hátt að tengja þau daglegu lífi fólks og fara ekki um of í smáatriði. Margt af því hefur verið um stærstu og alvarlegustu heilbrigðisvandamál okkar í dag eins og offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, krabbamein og þannig mætti lengi telja. Ég hef líka ritað um kynlíf og samlíf, hamingjuna, prump og hægðatruflanir svo eitthvað sé nefnt sem og blátt þvag. En svona að öllu gamni slepptu hafa þessir pistlar iðulega átt að hafa þann tilgang að fræða og benda á mögulegar lausnir. Á sama tíma og þessar greinar hafa birst í Fréttablaðinu hefur mér verið vel tekið í útvarpinu, en ég hef mætt þangað vikulega eða verið í símasambandi til að ræða pistil gærdagsins um nokkuð langt skeið. Kann ég félögum mínum í Bítinu á Bylgjunni miklar þakkir fyrir góða viðkynningu og samveru á liðnum árum. Einhver sagði við mig að ég væri líklega eini læknirinn hérlendis sem hefði verið í öllum tegundum fjölmiðla samtímis, en stutt viðvera í sjónvarpi á síðasta hausti var skemmtileg tilbreyting. Annað markmið með því að skrifa var að koma skilaboðum áleiðis um forvarnir sem ég tel að séu grundvallaratriði í tengslum við allt heilbrigði og þróun sjúkdóma. Þá einna helst að hvetja til og stuðla að andlegri vellíðan sem líklega er mikilvægari en flest annað. Af nógu hefur verið að taka og er ljóst að ég gæti skrifað í mörg ár til viðbótar um heilsu, sjúkdóma og lífsstíl því þar eru óþrjótandi efnistök. Nú kynnu sumir að halda að mér hafi verið sagt upp eða viðlíka á Fréttablaðinu, en svo er alls ekki. Fyrir þá sem ekki vita, þá kynnu þeir að undrast það að ég hef ekki verið með neinn samning og hef ekki þegið eina krónu í þóknun fyrir skrif eða viðveru í útvarpi hingað til, heldur hefur þetta verið gert af einskærum áhuga. Það hlýjar manni þess vegna enn frekar um hjartaræturnar þegar ókunnugt fólk hrósar manni fyrir skrifin eða segist alltaf lesa pistlana á þriðjudögum. Ég hef verið afar þakklátur fyrir það og kann öllum þeim bestu þakkir sem hafa fylgt mér þessi tæpu 3 ár. Þessum kafla er lokið í bili, ég neita því ekki að það er tregablandið, en það var líka markmið í sjálfu sér að geta tekið þessa ákvörðun um að hætta þegar ég vildi og á mínum forsendum. Og nei, ég er ekki veikur eða að fara af landi brott. Það kemur alltaf eitthvað annað í staðinn, til dæmis að klára bókina sem ég er byrjaður á, möguleikarnir eru ansi margir. Næsta verkefni verður hið minnsta að bretta enn frekar upp ermar og stuðla að bættu heilbrigðiskerfi sem áhuga- og fagmaður, ekki veitir af! En ég ætla að byrja á því að halda upp á afmælið mitt í dag. Takk kærlega fyrir mig og góðar stundir!