Kammersinfónía, Elja, Ymni, Maes Howe
Áskell Másson
NAXOS
Tónlist Áskels Mássonar er á vissan hátt skuggaleg. Tónmálið er dökkt og stemningin dálítið þungbúin. Þó er hún alls ekki drungaleg. Þvert á móti er ljós í henni sem skín í myrkrinu, venjulega í lok verkanna. Þetta er eitt af megineinkennum tónsmíðanna sem er að finna á geisladiski með Caput hópnum frá Naxos-útgáfunni.
Verkin sem um ræðir eru heillandi. Þau eru misflókin og eftir því misjafnlega aðgengileg. En það er samt í þeim innra samhengi, Áskell tapar aldrei þræðinum. Tónlistin er full af merkingu, skáldskapurinn er innblásinn. Hugmyndirnar eru frjóar. Framvindan er margbrotin og á köflum óvænt, en þó eðlileg. Það er svo fallegt hvernig Áskell endar verkin sín. Frásögnin á undan er e.t.v. tormelt, en síðan renna ólíkir þræðir saman í lokin í dásamlegum einfaldleika. Stundum er það bara eitthvert barnslegt stef, eða kannski liggjandi hljómar. Hvað sem það er, þá gengur það alltaf upp. Þetta eru eins og sólstafir sem brjótast í gegnum skýin.

Niðurstaða: Glæsilegur flutningur á nokkrum mögnuðum verkum eftir Áskel Másson.