Fótbolti

Ronaldo hefur aldrei skorað á Anfield - breytist það í kvöld?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Æ, ekki Anfield. Cristiano Ronaldo hefur ekki gengið vel að skora á heimavelli Liverpool.
Æ, ekki Anfield. Cristiano Ronaldo hefur ekki gengið vel að skora á heimavelli Liverpool. Vísir/Getty
Stórleikur kvöldsins í þriðju umferð Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu fer fram á Anfield þar sem heimamenn í Liverpool taka á móti stjörnum prýddu liði Real Madrid.

Þessir tveir Evrópurisar hafa ekki mæst í Meistaradeildinni síðan 2009 þegar Liverpool valtaði yfir spænska liðið í 16 liða úrslitum keppninnar, samanlagt 5-0. Liverpool vann fyrri leikinn 1-0 í Madríd og bauð svo upp á 4-0 flugeldasýningu á heimavelli.

Í liði Real Madrid er maður sem Liverpool kannast vel við; Cristiano Ronaldo, besti leikmaður heims. Ronaldo var ekki í liði Real 2009 þegar liðin mættust síðast því þá var hann enn að hrella Liverpool-menn í ensku úrvalsdeildinni.

Ronaldo er alltaf hættulegur enda skorar hann meira en mark í leik, en Liverpool-menn geta huggað sig við það, að hann hefur aldrei skorað mark á Anfield. Hann spilaði þar sex sinnum með Manchester United án þess að skora, en lagði upp mark í sigrum árin 2005 og 2007.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á eftir upphitun sem hefst klukkan 18.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×