Guð blessi Mjólkursamsöluna Guðmundur Andri Thorsson skrifar 29. september 2014 00:00 Svokallaður Kristsdagur vakti athygli nú nýlega fyrir mörg og ýtarleg bænarefni sem Guð var beðinn um uppfylla næst þegar hann leiðir hugann að Íslandi. Þannig var Tollstjóraembættið nefnt alveg sérstaklega í þessu sambandi svo að öllum hlýtur að hlýna um hjartarætur sem þekkja hina snjöllu dæmisögu Krists um faríseann og tollheimtumanninn þegar sá fyrrnefndi vildi þakka Guði fyrir að vera ekki eins og sá síðarnefndi.Kaupfélagsstjórinn yfir Íslandi… Stjórnmálamenn voru nefndir og Guð beðinn um að færa þeim visku, sem má svo sem segja að full ástæða sé til, þó að fáir menn í veröldinni þurfi á hinn bóginn minna á Guði almáttugum að halda en einmitt íslenskir stjórnmálamenn – þeir njóta sérstakrar náðar íslenskra kjósenda algerlega óháð frammistöðu sinni. Sérstaka athygli vakti að Guð skyldi vera beðinn um að vaka yfir kvótakerfinu í sjávarútvegi; þó vandséð sé hvernig hann geti gert meira fyrir útgerðarmennina en þegar er búið að gera: kannski að gefa þeim vatnið líka og allt þetta nýja hraun… Fleiri ráðamenn voru nefndir, svo sem vera ber, þó að furðu gegni að hafi gleymst sjálfur Kaupfélagsstjórinn yfir Íslandi – þessi sem situr á Sauðárkróki og kemur þaðan að deila út Kaupfélagskortum og kvótaleyfum. Guð er beðinn um að breyta viðhorfum til fóstureyðinga – sem maður skyldi ætla að hann væri búinn að gera hefði hann á því áhuga og væri það á hans færi og hann hefði ekki álpast til að gefa mönnunum frjálsan vilja. Ekki var hins vegar beðið fyrir fórnarlömbum kynferðisofbeldis á þessari ráðstefnu eða þeim beðið blessunar sem verða fyrir barðinu á fordómum vegna hörundslitar, menningar eða kynhneigðar eða Guð beðinn um að breyta viðhorfum þeirra sem hata meðborgara sína út af slíkum hlutum. En það er náttúrlega ekki hægt að muna eftir öllum. Sumum þó: aðstandendur biðja fyrir „landbúnaðinum og iðnaði tengdum landbúnaði“ og kannski ekki vanþörf á, en sakna má þess að ekki skyldi beðið fyrir sjálfri Mjólkursamsölunni sem svo sannarlega þarf á fyrirbænum allra sinna velunnara að halda nú þegar maður horfir á alls konar fólk skimandi um afkima í mjólkurkælum stórverslana í leit að mjólk keppinautanna, eins og allt þetta fólk sé komið í leikinn gamla „Fela hlut“ – en enginn heitur, allir kaldir, öllum kalt.Guð blessi Mjólkursamsöluna Það gleymdist með öðrum orðum að biðja fyrir MS. Úr þessari þörf hljótum við að reyna að bæta. Fyrirgefðu okkur, Guð, syndir okkar gagnvart Mjólkursamsölunni og þakka þér fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir okkur. Leiddu hana áfram í sínu góða starfi. Og hjálpaðu okkur að verðskulda gjafir hennar. Rétt eins og þú ert einn og við skulum ekki aðra guði hafa þá er Mjólkursamsalan ein og við skulum ekki aðrar mjólkursölur hafa. Megi Mjólkursamsalan halda áfram að finna nýjar aðferðir við að hrúga upp í börnin okkar sem allra mestum sykri sem allra fyrst á ævinni, í nafni kalkneyslu, tannverndar og íslenskrar tungu. Guð, láttu Mjólkursamsöluna finna vaxtarsprota samkeppnisaðila um leið og þeir stinga upp kolli, svo að henni megi auðnast að kæfa þá í fæðingu í nafni kalkneyslu, tannverndar og íslenskrar tungu. Og megi Mjólkursamsalan losa sig við alla sína keppinauta, svo sem vér og fyrirgerum vorum keppinautum. Megi Mjólkursamsalan áfram eiga alla mjólk sem til er á Íslandi. Megi hún áfram hafa að minnsta kosti 95 prósent markaðshlutdeild og helst meira. Og megi henni takast að nota markaðsráðandi stöðu sína áfram til að auka þá hlutdeild. Guð, hjálpaðu Mjólkursamsölunni að koma áfram í veg fyrir frjálsa verslun með matvöru á Íslandi. Megi Mjólkursamsalan halda áfram að selja okkur þann ost sem hún réttir að okkur úr sannri íslenskri mjólk, undir frægum alþjóðanöfnum og koma í veg fyrir hvers kyns innflutning á hinum raunverulegu ostum, sem búnir eru til úr óhreinni erlendri mjólk í nafni útlenskrar tungu. Megi Mjólkursamsalan áfram geta gengið að atkvæðum meirihluta íslenskra kjósenda vísum til stuðnings óbreyttu kerfi. Megi íslenskir neytendur áfram vera Mjólkursamsölunni óþrótandi auðlind. Í nafni tannverndar, kalkneyslu og íslenskrar tungu, Mjólk er góð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Svokallaður Kristsdagur vakti athygli nú nýlega fyrir mörg og ýtarleg bænarefni sem Guð var beðinn um uppfylla næst þegar hann leiðir hugann að Íslandi. Þannig var Tollstjóraembættið nefnt alveg sérstaklega í þessu sambandi svo að öllum hlýtur að hlýna um hjartarætur sem þekkja hina snjöllu dæmisögu Krists um faríseann og tollheimtumanninn þegar sá fyrrnefndi vildi þakka Guði fyrir að vera ekki eins og sá síðarnefndi.Kaupfélagsstjórinn yfir Íslandi… Stjórnmálamenn voru nefndir og Guð beðinn um að færa þeim visku, sem má svo sem segja að full ástæða sé til, þó að fáir menn í veröldinni þurfi á hinn bóginn minna á Guði almáttugum að halda en einmitt íslenskir stjórnmálamenn – þeir njóta sérstakrar náðar íslenskra kjósenda algerlega óháð frammistöðu sinni. Sérstaka athygli vakti að Guð skyldi vera beðinn um að vaka yfir kvótakerfinu í sjávarútvegi; þó vandséð sé hvernig hann geti gert meira fyrir útgerðarmennina en þegar er búið að gera: kannski að gefa þeim vatnið líka og allt þetta nýja hraun… Fleiri ráðamenn voru nefndir, svo sem vera ber, þó að furðu gegni að hafi gleymst sjálfur Kaupfélagsstjórinn yfir Íslandi – þessi sem situr á Sauðárkróki og kemur þaðan að deila út Kaupfélagskortum og kvótaleyfum. Guð er beðinn um að breyta viðhorfum til fóstureyðinga – sem maður skyldi ætla að hann væri búinn að gera hefði hann á því áhuga og væri það á hans færi og hann hefði ekki álpast til að gefa mönnunum frjálsan vilja. Ekki var hins vegar beðið fyrir fórnarlömbum kynferðisofbeldis á þessari ráðstefnu eða þeim beðið blessunar sem verða fyrir barðinu á fordómum vegna hörundslitar, menningar eða kynhneigðar eða Guð beðinn um að breyta viðhorfum þeirra sem hata meðborgara sína út af slíkum hlutum. En það er náttúrlega ekki hægt að muna eftir öllum. Sumum þó: aðstandendur biðja fyrir „landbúnaðinum og iðnaði tengdum landbúnaði“ og kannski ekki vanþörf á, en sakna má þess að ekki skyldi beðið fyrir sjálfri Mjólkursamsölunni sem svo sannarlega þarf á fyrirbænum allra sinna velunnara að halda nú þegar maður horfir á alls konar fólk skimandi um afkima í mjólkurkælum stórverslana í leit að mjólk keppinautanna, eins og allt þetta fólk sé komið í leikinn gamla „Fela hlut“ – en enginn heitur, allir kaldir, öllum kalt.Guð blessi Mjólkursamsöluna Það gleymdist með öðrum orðum að biðja fyrir MS. Úr þessari þörf hljótum við að reyna að bæta. Fyrirgefðu okkur, Guð, syndir okkar gagnvart Mjólkursamsölunni og þakka þér fyrir allt það sem hún hefur gert fyrir okkur. Leiddu hana áfram í sínu góða starfi. Og hjálpaðu okkur að verðskulda gjafir hennar. Rétt eins og þú ert einn og við skulum ekki aðra guði hafa þá er Mjólkursamsalan ein og við skulum ekki aðrar mjólkursölur hafa. Megi Mjólkursamsalan halda áfram að finna nýjar aðferðir við að hrúga upp í börnin okkar sem allra mestum sykri sem allra fyrst á ævinni, í nafni kalkneyslu, tannverndar og íslenskrar tungu. Guð, láttu Mjólkursamsöluna finna vaxtarsprota samkeppnisaðila um leið og þeir stinga upp kolli, svo að henni megi auðnast að kæfa þá í fæðingu í nafni kalkneyslu, tannverndar og íslenskrar tungu. Og megi Mjólkursamsalan losa sig við alla sína keppinauta, svo sem vér og fyrirgerum vorum keppinautum. Megi Mjólkursamsalan áfram eiga alla mjólk sem til er á Íslandi. Megi hún áfram hafa að minnsta kosti 95 prósent markaðshlutdeild og helst meira. Og megi henni takast að nota markaðsráðandi stöðu sína áfram til að auka þá hlutdeild. Guð, hjálpaðu Mjólkursamsölunni að koma áfram í veg fyrir frjálsa verslun með matvöru á Íslandi. Megi Mjólkursamsalan halda áfram að selja okkur þann ost sem hún réttir að okkur úr sannri íslenskri mjólk, undir frægum alþjóðanöfnum og koma í veg fyrir hvers kyns innflutning á hinum raunverulegu ostum, sem búnir eru til úr óhreinni erlendri mjólk í nafni útlenskrar tungu. Megi Mjólkursamsalan áfram geta gengið að atkvæðum meirihluta íslenskra kjósenda vísum til stuðnings óbreyttu kerfi. Megi íslenskir neytendur áfram vera Mjólkursamsölunni óþrótandi auðlind. Í nafni tannverndar, kalkneyslu og íslenskrar tungu, Mjólk er góð.