Lofsöngur er fallegt lag en það er eitthvað fáránlegt við það að lofa guð í staðinn fyrir að lofa land og þjóð. Sjálfur tengi ég þjóðsöngva helst við landsleiki í íþróttum. Það er ekkert skrýtið að fáir áhorfendur á landsleikjum taki undir í lagi sem fjallar um guð sem þeir trúa ekki á. Jafnvel þótt búið sé að breyta tóntegundinni. Tenging flestra Íslendinga við lagið er lítil sem engin.
Margir eru sammála um að hvíla eigi Lofsöng og finna betra lag. Ísland ögrum skorið hefur verið nefnt. Sömuleiðis Ísland er land þitt og Öxar við ána. Þau síðarnefndu eru fínir kostir. En viti menn, enn betri lausn er fundin. Lagið sem svo margir kunna og elska að syngja. Ferðalok: „Ég er kominn heim.“
Hvað er betra en vísun í sígilt íslenskt líf þar sem fjölskyldan bíður eftir því að sjómaðurinn skili sér heill heim? Vísun í sólina sem málar myndir á sjóinn í vogunum? Fallega jökla landsins? Ást milli karls og konu sem bíða eftir því að vetri ljúki og betri tíð taki við? Ekkert, það er ekkert betra.
Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar syngja um landið sitt en ekki guð. Í draumi mínum syngja tíu þúsund manns á Laugardalsvelli að allt sé bjart fyrir okkur tveim því ég sé kominn heim, til Íslands – ekki guðs.