Menning

Syngja flest lögin án undirleiks

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Á vortónleikum Kammerkórs Mosfellsbæjar koma fram fjórir einsöngvarar, allir úr röðum kórsins.
Á vortónleikum Kammerkórs Mosfellsbæjar koma fram fjórir einsöngvarar, allir úr röðum kórsins. Mynd/Úr einkasafni
Vel þekkt verk eftir enska endurreisnarmanninn John Dowland og austurríska tónskáldið Franz Schubert eru á efnisskrá Kammerkórs Mosfellsbæjar á vortónleikum hans í Háteigskirkju klukkan 17 á sunnudaginn. Einnig nýstárlegri tónlist, til dæmis eftir John A. Speight.



Kórinn flytur hið alþekkta lag Sigur Rósar, Vöku, í útsetningu kórstjórans, Símonar H. Ívarssonar, nokkur gospellög og spænskt lag, Baile, samið af Mario Castelnuovo-Tedesco við ljóð eftir Federico Garcia Lorca. Sérstök áhersla verður lögð á kórverk eftir Gunnar Reyni Sveinsson.

Símon kórstjóri mun taka sér gítarinn í hönd og flytja eitt flamenco-lag ásamt syni sínum Ívari, sem einnig hefur lagt fyrir sig gítarleik og leikur á gítar í nokkrum lögum. Flest lögin flytur kórinn þó án undirleiks.

Einsöng syngja þau Heiðrún Kristín Guðvarðardóttir, Reynir Bergmann Pálsson, Unnur Helga Möller og Viktor Guðlaugsson sem öll koma úr röðum kórfélaga. Einnig kemur fram sönghópurinn Karlar í krapinu sem er skipaður nokkrum félögum úr kórnum.

Aðgangseyrir að tónleikunum er 2.000 krónur. Aldraðir greiða 1.500 en frítt er fyrir börn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×