Píndur á dögum Pontíusar Pílatusar Illugi Jökulsson skrifar 19. apríl 2014 12:00 ECCE HOMO – SJÁIÐ MANNINN. PÍLATUS SÝNIR LÝÐNUM JESÚA FRÁ NASARET. Helgiathöfnin var að hefjast. Hátíðlegir tónar orgelsins hljóðnuðu. Söfnuðurinn var tilbúinn og klerkurinn stóð andspænis fólkinu og lyfti höndum. Aldrei þessu vant var klerkurinn karlkyns að þessu sinni. „Förum með trúarjátningu vora, gott fólk,“ tónaði hann hljómmikilli röddu og þó svo mildri. Söfnuðurinn reis á fætur og hver manneskja lagði hönd á hjarta. Svo upphófst einum rómi:„Ég trúi á Guð föður, almáttugan skapara himins og jarðar. Ég trúi á hans einkason sem getinn er af heilögum anda, fæddur af hinni helgu móður, píndur á dögum Sigríðar Friðjónsdóttur, líflátinn, látinn og grafinn, steig niður til heljar en reis –“ Bíðum nú andartak. Hvað er Sigríður Friðjónsdóttir að gera í þessari trúarjátningu? Er hún ekki ríkissaksóknari? Vammlaus embættismaður með öllu og ekki við nein trúmál kennd? Hvaða rugl er þetta? Jú, þetta upphaf greinarinnar var auðvitað bara leikur, eða öllu heldur tilraun til að sjá hvernig það liti út ef á legg kæmust í veröldinni einhver ný trúarbrögð sem bæru þó allan keim af kristindómnum. Og þar hefði til dæmis líka verið um að ræða einhvers konar frelsara sem hefði lent upp á kant við yfirvöldin, verið fangelsaður og dæmdur, og látið lífið við einhverjar þær aðstæður sem fylgismönnum hans þættu jafngilda lífláti, en svo hefði spurst út skömmu seinna að hann hefði alls ekki dáið – og svo framvegis. Og ef þeir sem tryðu á þennan nýja ónefnda frelsara vildu svo líka apa trúarjátningu sína eftir trúarjátningu kristinna manna, þá kynni það undarlega að gerast að inn í hana dytti nafn embættismanns eins og til dæmis Sigríðar Friðjónsdóttur, einfaldlega af því hún vann sína vinnu samviskusamlega og sótti til saka fyrir einhver augljós lögbrot þann mann sem tiltekinn söfnuður taldi seinna að hefði í rauninni verið guð. Það sem ég á í rauninni við er þetta: Er það ekki öldungis stórskrýtið að í trúarjátningu íslensku þjóðkirkjunnar, þeirri játningu sem allir kristnir menn fara með væntanlega reglulega, og ekki síst fermingarbörn um páskaleytið – er það semsé ekki stórskrýtið að í henni skuli vera að finna nafnið á annars nær óþekktum rómverskum embættismanni, manni sem hafði áreiðanlega ekki minnsta áhuga á trúmálum, heldur lagði sig bara fram um að sinna sínu lögbundna starfi af samviskusemi og alúð? Ég á við Pontíus Pílatus. Hann var landstjóri Rómverja í Júdeu um það bil sem Jesúa frá Nasaret var handtekinn og ákærður, dæmdur og krossfestur, og gegndi ekki ósvipuðu hlutverki í þeim prósess og saksóknari ríkisins gerir á Íslandi nútildags, þótt reyndar væri Pílatus dómari um leið; aðgreining hinna ýmsu valdþátta var heldur skammt á veg komin í Rómaveldi. Sá ágæti maður Pílatus reyndi að sinna sínu starfi eins og best hann gat og hann hefði ugglaust látið segja sér það tvisvar og jafnvel þrisvar og jafnvel töluvert oftar að frekar hversdagsleg embættisverk sem hann vann án þess að leiða mjög að því hugann rétt fyrir páska árið 33, þau hefðu á endanum leitt til þess að fermingarbörn á Íslandi (landi sem Pílatus vissi að vísu ekki að væri til) þylji nú nafn hans í sjálfri trúarjátningu sinni heilagri:„Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn,“ og svo framvegis. Þetta eru undarleg örlög fyrir okkar mann Pílatus. Hver hann var? Það er nefnilega ekki gott að segja. Ekkert, nákvæmlega ekkert, er um hann vitað áður en hann var skipaður landstjóri Rómverja í Júdeu árið 26 eftir Krist. Hann var ekki af neinni hefðbundinni valdaætt í Róm, ættarnafnið hans kemur einfaldlega hvergi fyrir nema hjá honum sjálfum, og eftir hans dag, þá gufar nafnið upp jafn snögglega og það birtist í spegli sögunnar. Mér þykir lang sennilegast að Pílatus hafi verið sérlegur skjólstæðingur Luciusar Sejanusar, en hann var lífvarðaforingi Tíberíusar keisara frá árinu 14 og safnaði að lokum svo miklum völdum í sínar hendur að hann var eiginlega orðinn valdamesti maður ríkisins, ekki síst eftir að Tíberíus settist að á eynni Kaprí árið 26 en lét Sejanus um hina daglegu stjórn ríkisins í Róm. Gömlu öldungaráðsættirnar og sömuleiðis ættingjar Tíberíusar sáu ofsjónum yfir sívaxandi völdum Sejanusar og hann hefur því lagt sig allan fram um að efla sína stuðningsmenn til æ meiri valda – svo hann hefði bandamenn gegn öfundarmönnum sínum. Þar á meðal hefur Pontíus Pílatus verið. Hann hefur líklega verið af lágaðli hinna svokölluðu riddara og næstum áreiðanlega utan af landi, upprunninn í einhverjum miðlungsbæ eða þorpi ekki allfjarri Róm og hefur svo verið sendur til heimsborgarinnar af mömmu sinni og pabba í von um að hann hlyti þar frægð og frama. Það er næsta víst að Pílatus hefur slegist í hóp ungu mannanna sem löngum héldu til á Rómartorgi, eða Forum Romanum, og reyndu að vekja á sér athygli með einhverjum ráðum – þetta voru hópar mismikilla töffara sem áttu ekkert voða mikinn pening og þurftu helst að verða skjólstæðingar einhverra auðkýfinga eða embættismanna svo þeir kæmust almennilega áfram – til þessara manna hefur Sejanus leitað þegar hann þurfti að koma sér upp sveit tryggra fylgismanna, og einhvern tíma hefur hann vikið sér að ungum slánalegum sveitastrák sem var eitthvað að gaspra á torginu og gera sig breiðan og spurt hann: „Hvað heitir þú, væni?“ – og sláninn svaraði: „Pílatus, herra, Pontíus Pílatus.“ Það má ennfremur ímynda sér að Pílatus hafi fyrsta kastið verið settur í eitthvert miðlungsembætti hjá lífvarðasveitunum, kannski var hann birgðastjóri, kannski gjaldkeri, en svo sama ár og Sejanusi tókst að ýta Tíberíusi til Kaprí að sinna sínum pedófílsku hvötum, þá var lífvarðaforinginn orðinn nógu traustur í sessi til að geta gert lágaðalsguttann af birgðaskrifstofunni að hvorki meira né minna en landstjóra heimsveldisins í Júdeu. Það sem mamma heima í sveitinni hefur áreiðanlega verið stolt! Því þótt Júdea væri afskekkt skattland og fjarri Róm, þá var það nú virðingarstarf samt að vera þar landstjóri. Starfið fólst aðallega í tvennu, að safna sköttum og halda friðinn og Pílatus hefur gengið til verks af algjörri samviskusemi og miklum metnaði. Í þeim heimildum sem til eru um Pílatus, aðrar en guðspjöllin, þar kemur fram að hann var heilmikið hörkutól og að minnsta kosti þrisvar vakti hann gríðarlega andúð þegna sinna Gyðinganna, sem fannst hann lítilsvirða trú þeirra og sjálfsvitund með yfirgangi og frekju. Einn þeirra Gyðinga sem skrifaði um Pílatus, Fíló frá Alexandríu, segir að hann hafi verið „hefnigjarn skapofsamaður“ og ennfremur „ósveigjanlegur, viljasterkur og óaflátanlegur“. Og þegar Gyðingar skrifuðu einu sinni til Tíberíusar til að kvarta undan landstjóra sínum, þá segir Fíló að Pílatus hafi óttast að í bréfinu yrði komið upp um múturnar, móðganirnar, ránsmennskuna, svívirðingarnar, illvirkin, aftökurnar án dóms og laga og þrotlausa og alltumlykjandi grimmdina, sem einkennt hafi alla hans stjórnartíð. Tíberíus mun reyndar einu sinni hafa sett ofan í við Pílatus en hann hélt þó embætti sínu í heil tíu ár, sem var fáheyrt í skattlandinu Júdeu. Og merkilegast af öllu var að Pílatus lifði af þótt Sejanus félli í ónáð og væri líflátinn árið 31, þá upphóf Tíberíus miklar hreinsanir á mönnum Sejanusar sem ekki þurftu að kemba hærurnar. En Pílatus hélt velli fimm ár enn. Það sýnir að hvað sem líður lýsingum Fílós og fleiri á grimmd og hörku Pílatusar (lýsingum sem áreiðanlega hafa verið ýktar töluvert) þá hefur hann verið flinkur og þrautseigur embættismaður. Og þegar hann dæmdi Jesúa frá Nasaret til dauða, þá var hann ósköp einfaldlega að gegna skyldu sinni – að bæla niður hugsanlegan óeirðasegg. Aftökur slíkra manna voru mjög algengar í Júdeu og töldust hvorki tíðindum sæta, né þóttu þær sérstök grimmdarverk á sínum tíma. En þessi dugmikli embættismaður, landstjóri, skattastjóri, saksóknari, dómari, hann endaði svo í trúarjátningu útbreiddustu trúarbragða heimsins. Skyldi mamma hans hafa hætt við að senda strákinn sinn í frægðarleit til heimsborgarinnar ef hana hefði grunað þau örlög hans? Flækjusaga Menning Mest lesið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Andrew Garfield á Íslandi Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira
Helgiathöfnin var að hefjast. Hátíðlegir tónar orgelsins hljóðnuðu. Söfnuðurinn var tilbúinn og klerkurinn stóð andspænis fólkinu og lyfti höndum. Aldrei þessu vant var klerkurinn karlkyns að þessu sinni. „Förum með trúarjátningu vora, gott fólk,“ tónaði hann hljómmikilli röddu og þó svo mildri. Söfnuðurinn reis á fætur og hver manneskja lagði hönd á hjarta. Svo upphófst einum rómi:„Ég trúi á Guð föður, almáttugan skapara himins og jarðar. Ég trúi á hans einkason sem getinn er af heilögum anda, fæddur af hinni helgu móður, píndur á dögum Sigríðar Friðjónsdóttur, líflátinn, látinn og grafinn, steig niður til heljar en reis –“ Bíðum nú andartak. Hvað er Sigríður Friðjónsdóttir að gera í þessari trúarjátningu? Er hún ekki ríkissaksóknari? Vammlaus embættismaður með öllu og ekki við nein trúmál kennd? Hvaða rugl er þetta? Jú, þetta upphaf greinarinnar var auðvitað bara leikur, eða öllu heldur tilraun til að sjá hvernig það liti út ef á legg kæmust í veröldinni einhver ný trúarbrögð sem bæru þó allan keim af kristindómnum. Og þar hefði til dæmis líka verið um að ræða einhvers konar frelsara sem hefði lent upp á kant við yfirvöldin, verið fangelsaður og dæmdur, og látið lífið við einhverjar þær aðstæður sem fylgismönnum hans þættu jafngilda lífláti, en svo hefði spurst út skömmu seinna að hann hefði alls ekki dáið – og svo framvegis. Og ef þeir sem tryðu á þennan nýja ónefnda frelsara vildu svo líka apa trúarjátningu sína eftir trúarjátningu kristinna manna, þá kynni það undarlega að gerast að inn í hana dytti nafn embættismanns eins og til dæmis Sigríðar Friðjónsdóttur, einfaldlega af því hún vann sína vinnu samviskusamlega og sótti til saka fyrir einhver augljós lögbrot þann mann sem tiltekinn söfnuður taldi seinna að hefði í rauninni verið guð. Það sem ég á í rauninni við er þetta: Er það ekki öldungis stórskrýtið að í trúarjátningu íslensku þjóðkirkjunnar, þeirri játningu sem allir kristnir menn fara með væntanlega reglulega, og ekki síst fermingarbörn um páskaleytið – er það semsé ekki stórskrýtið að í henni skuli vera að finna nafnið á annars nær óþekktum rómverskum embættismanni, manni sem hafði áreiðanlega ekki minnsta áhuga á trúmálum, heldur lagði sig bara fram um að sinna sínu lögbundna starfi af samviskusemi og alúð? Ég á við Pontíus Pílatus. Hann var landstjóri Rómverja í Júdeu um það bil sem Jesúa frá Nasaret var handtekinn og ákærður, dæmdur og krossfestur, og gegndi ekki ósvipuðu hlutverki í þeim prósess og saksóknari ríkisins gerir á Íslandi nútildags, þótt reyndar væri Pílatus dómari um leið; aðgreining hinna ýmsu valdþátta var heldur skammt á veg komin í Rómaveldi. Sá ágæti maður Pílatus reyndi að sinna sínu starfi eins og best hann gat og hann hefði ugglaust látið segja sér það tvisvar og jafnvel þrisvar og jafnvel töluvert oftar að frekar hversdagsleg embættisverk sem hann vann án þess að leiða mjög að því hugann rétt fyrir páska árið 33, þau hefðu á endanum leitt til þess að fermingarbörn á Íslandi (landi sem Pílatus vissi að vísu ekki að væri til) þylji nú nafn hans í sjálfri trúarjátningu sinni heilagri:„Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn,“ og svo framvegis. Þetta eru undarleg örlög fyrir okkar mann Pílatus. Hver hann var? Það er nefnilega ekki gott að segja. Ekkert, nákvæmlega ekkert, er um hann vitað áður en hann var skipaður landstjóri Rómverja í Júdeu árið 26 eftir Krist. Hann var ekki af neinni hefðbundinni valdaætt í Róm, ættarnafnið hans kemur einfaldlega hvergi fyrir nema hjá honum sjálfum, og eftir hans dag, þá gufar nafnið upp jafn snögglega og það birtist í spegli sögunnar. Mér þykir lang sennilegast að Pílatus hafi verið sérlegur skjólstæðingur Luciusar Sejanusar, en hann var lífvarðaforingi Tíberíusar keisara frá árinu 14 og safnaði að lokum svo miklum völdum í sínar hendur að hann var eiginlega orðinn valdamesti maður ríkisins, ekki síst eftir að Tíberíus settist að á eynni Kaprí árið 26 en lét Sejanus um hina daglegu stjórn ríkisins í Róm. Gömlu öldungaráðsættirnar og sömuleiðis ættingjar Tíberíusar sáu ofsjónum yfir sívaxandi völdum Sejanusar og hann hefur því lagt sig allan fram um að efla sína stuðningsmenn til æ meiri valda – svo hann hefði bandamenn gegn öfundarmönnum sínum. Þar á meðal hefur Pontíus Pílatus verið. Hann hefur líklega verið af lágaðli hinna svokölluðu riddara og næstum áreiðanlega utan af landi, upprunninn í einhverjum miðlungsbæ eða þorpi ekki allfjarri Róm og hefur svo verið sendur til heimsborgarinnar af mömmu sinni og pabba í von um að hann hlyti þar frægð og frama. Það er næsta víst að Pílatus hefur slegist í hóp ungu mannanna sem löngum héldu til á Rómartorgi, eða Forum Romanum, og reyndu að vekja á sér athygli með einhverjum ráðum – þetta voru hópar mismikilla töffara sem áttu ekkert voða mikinn pening og þurftu helst að verða skjólstæðingar einhverra auðkýfinga eða embættismanna svo þeir kæmust almennilega áfram – til þessara manna hefur Sejanus leitað þegar hann þurfti að koma sér upp sveit tryggra fylgismanna, og einhvern tíma hefur hann vikið sér að ungum slánalegum sveitastrák sem var eitthvað að gaspra á torginu og gera sig breiðan og spurt hann: „Hvað heitir þú, væni?“ – og sláninn svaraði: „Pílatus, herra, Pontíus Pílatus.“ Það má ennfremur ímynda sér að Pílatus hafi fyrsta kastið verið settur í eitthvert miðlungsembætti hjá lífvarðasveitunum, kannski var hann birgðastjóri, kannski gjaldkeri, en svo sama ár og Sejanusi tókst að ýta Tíberíusi til Kaprí að sinna sínum pedófílsku hvötum, þá var lífvarðaforinginn orðinn nógu traustur í sessi til að geta gert lágaðalsguttann af birgðaskrifstofunni að hvorki meira né minna en landstjóra heimsveldisins í Júdeu. Það sem mamma heima í sveitinni hefur áreiðanlega verið stolt! Því þótt Júdea væri afskekkt skattland og fjarri Róm, þá var það nú virðingarstarf samt að vera þar landstjóri. Starfið fólst aðallega í tvennu, að safna sköttum og halda friðinn og Pílatus hefur gengið til verks af algjörri samviskusemi og miklum metnaði. Í þeim heimildum sem til eru um Pílatus, aðrar en guðspjöllin, þar kemur fram að hann var heilmikið hörkutól og að minnsta kosti þrisvar vakti hann gríðarlega andúð þegna sinna Gyðinganna, sem fannst hann lítilsvirða trú þeirra og sjálfsvitund með yfirgangi og frekju. Einn þeirra Gyðinga sem skrifaði um Pílatus, Fíló frá Alexandríu, segir að hann hafi verið „hefnigjarn skapofsamaður“ og ennfremur „ósveigjanlegur, viljasterkur og óaflátanlegur“. Og þegar Gyðingar skrifuðu einu sinni til Tíberíusar til að kvarta undan landstjóra sínum, þá segir Fíló að Pílatus hafi óttast að í bréfinu yrði komið upp um múturnar, móðganirnar, ránsmennskuna, svívirðingarnar, illvirkin, aftökurnar án dóms og laga og þrotlausa og alltumlykjandi grimmdina, sem einkennt hafi alla hans stjórnartíð. Tíberíus mun reyndar einu sinni hafa sett ofan í við Pílatus en hann hélt þó embætti sínu í heil tíu ár, sem var fáheyrt í skattlandinu Júdeu. Og merkilegast af öllu var að Pílatus lifði af þótt Sejanus félli í ónáð og væri líflátinn árið 31, þá upphóf Tíberíus miklar hreinsanir á mönnum Sejanusar sem ekki þurftu að kemba hærurnar. En Pílatus hélt velli fimm ár enn. Það sýnir að hvað sem líður lýsingum Fílós og fleiri á grimmd og hörku Pílatusar (lýsingum sem áreiðanlega hafa verið ýktar töluvert) þá hefur hann verið flinkur og þrautseigur embættismaður. Og þegar hann dæmdi Jesúa frá Nasaret til dauða, þá var hann ósköp einfaldlega að gegna skyldu sinni – að bæla niður hugsanlegan óeirðasegg. Aftökur slíkra manna voru mjög algengar í Júdeu og töldust hvorki tíðindum sæta, né þóttu þær sérstök grimmdarverk á sínum tíma. En þessi dugmikli embættismaður, landstjóri, skattastjóri, saksóknari, dómari, hann endaði svo í trúarjátningu útbreiddustu trúarbragða heimsins. Skyldi mamma hans hafa hætt við að senda strákinn sinn í frægðarleit til heimsborgarinnar ef hana hefði grunað þau örlög hans?
Flækjusaga Menning Mest lesið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Andrew Garfield á Íslandi Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 300.000 króna Lífið samstarf Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Partyland í Holtagörðum hefur allt fyrir gamlárspartýið Lífið samstarf Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira