Taki Keflvíkingar sig ekki saman í andlitinu og vinni Stjörnuna á heimavelli í kvöld í þriðja leik liðanna í 8 liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta verður liðinu sópað í sumarfrí.
Keflavík, sem endaði í 2. sæti deildakeppninnar með 18 sigra og fjögur töp, tapaði fyrsta leiknum fyrir Stjörnunni á heimavelli og var svo rassskellt í Ásgarði á mánudagskvöldið þar sem liðið virtist heillum horfið og leikmenn þess ekki með hausinn skrúfaðan rétt á.
„Við erum bara að spila gegn góðu liði sem er að spila vel, hitta úr skotunum sínum og spila góða vörn,“ segir Andy Johnston, þjálfari Keflavíkur, við Fréttablaðið.
„Við þurfum að halda áfram að gera það sem við gerðum vel í deildinni. Það er að þora að taka skotin okkar og verjast betur. Við verðum að halda Stjörnunni betur frá körfunni.“
Hljóðið var ekkert sérstaklega gott í Andy þegar Fréttablaðið heyrði í honum. Pressan eðlilega hleðst upp í Sláturhúsinu enda var kvennaliðinu sópað í sumarfrí og nú er karlaliðið á barmi sömu örlaga.
Þeir sem horfðu á leik Stjörnunnar og Keflavíkur á mánudagskvöldið í sjónvarpinu sáu hvernig Andy reyndi af veikum mætti að berja líf í sína menn í leikhléum. Það var sama hvað hann sagði, svörin voru fá. Hann þurfti að ganga svo langt að tala við þá eins og leikmenn í yngri flokkum og spyrja hvort þeir ætluðu hreinlega að vera í fýlu það sem eftir lifði leiks.
„Við getum barist betur en í síðasta leik og það gerum við á föstudaginn,“ segir Andy aðspurður um baráttu- og andleysið í liðinu í síðasta leik. Hann er afar stuttaralegur í svörum.
Spurður hvort hans menn hafi hreinlega gefist upp segir hann: „Nei, þeir eru ekki búnir að gefast upp. Þeir verða betri á föstudaginn. Við getum spilað betur en við höfum verið að gera og það gerum við á föstudaginn.“
Fáir höfðu trú á Stjörnunni fyrir einvígið enda slefaði liðið inn í úrslitakeppnina. Það vann tvö neðstu lið deildarinnar, Val og KFÍ, í tveimur af þremur síðustu leikjum sínum fyrir úrslitakeppnina en fékk svo rassskell á heimavelli gegn Njarðvík í lokaumferðinni. Andy telur liðið betra en deildakeppnin gefur til kynna.
„Ég sagði það fyrir seríuna að Stjarnan er að spila jafn vel og bestu liðin undanfarið. Það vann síðustu leiki sína með 30 stigum eða eitthvað og er vel þjálfað,“ segir Andy en hefur hann trú á að Keflavík geti unnið Stjörnuna þrisvar sinnum í röð?
„Við tökum bara einn leik í einu. Við verðum að spila vel á föstudaginn og vinna þann leik,“ segir Andy Johnston.
Körfubolti