Það blæðir úr rassinum! Teitur Guðmundsson skrifar 4. mars 2014 07:00 Vissulega dramatískt orðalag og sannarlega einkar óþægileg staða að vera í. Sérstaklega ef maður hefur ekki kennt sér neins meins og veit ekki hvers vegna slíkt ætti að gerast. Þó er þetta býsna algengt vandamál og oft ástæða þess að læknar fá símtal eða viðkomandi leitar á stofu. Í flestum tilvikum er um lítið magn að ræða sem kemur oftar en ekki fram þegar viðkomandi er að skeina sig, smávægilegt smit á pappír og orsökin bundin við gyllinæð eða sár við endaþarm. Öllu alvarlegra er ef það kemur ferskt blóð með hægðum sem er sjáanlegt með berum augum í klósettskálinni. Því geta fylgt verkir og mismikil óþægindi, sumir kenna sér þó einskis meins. Algengara er þó að einhver undanfari hafi verið, almenn líðan verri, aukinn slappleiki og þreyta, mögulega megrun, lystarleysi og nætursviti. Hér er auðvitað um að ræða svokölluð b einkenni sem oft fylgja alvarlegri sjúkdómum eins og til dæmis ristilkrabbameini. Þó fer það mjög eftir aldri hvaða grun læknirinn hefur þegar sjúklingur kvartar samanber lýsinguna hér að ofan. Hjá þeim yngri er líklegra að um ristilbólgusjúkdóma sé að ræða þó þeir geti komið fram á hvaða aldri sem er. Sýkingar og ýmis hastarleg veikindi geta einnig orsakað blæðingar frá ristli. En ef sjúklingurinn er orðinn rúmlega miðaldra er mögulegt að hann geti verið að sýna einkenni um ristilkrabbamein, sem í sumum tilvikum er þá orðið langt gengið og hefur grafið um sig í töluverðan tíma. Mikilvægt er þó að muna að ristilkrabbamein þarf ekki að gefa einkenni um jafnvel margra ára skeið, þess vegna er mikilvægt að skima hjá einkennalausum einstaklingum í skilgreindum áhættuhópum.Svipað hjá báðum kynjum Ég hef um langt skeið verið talsmaður skimunar fyrir ristilkrabbameini með öllum tiltækum ráðum, en núna í mars er alþjóðlegur mánuður um forvarnir gegn slíku meini og er mikilvægt að auka vitund og vitneskju um þann sjúkdóm, ekki síður en önnur krabbamein. Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins til að vekja karla til vitundar um sín kynbundnu mein auk þess að fræða almennt um einkenni krabbameina og vinna að forvörnum. Það er frábært framtak og nauðsynlegt, það skýtur hins vegar skökku við að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á fræðslu, forvarnir og ekki síst skimun gegn ristilkrabbameini en raun ber vitni fyrir BÆÐI kynin á undanförnum árum. Það stendur nú vonandi til bóta. Það er nefnilega svo að ristilkrabbamein er eitt algengasta mein bæði karla og kvenna, tíðni er svipuð hjá báðum kynjum og árlega greinast um 150 einstaklingar. Á hverju ári látast að meðaltali 50 einstaklingar eftir harða baráttu við erfiðan sjúkdóm, sumir langt um aldur fram. Flestar þjóðir í kringum okkur hafa komið á fót skimun hjá einkennalausum einstaklingum, þar sem reynt er að finna meinið á frumstigi. Þannig er það í mörgum tilvikum vel læknanlegt án stórra inngripa og sjúklingurinn þarf ekki að undirgangast skurðaðgerð, lyfja- eða geislameðferð með tilheyrandi aukaverkunum. Þrátt fyrir að embætti Landlæknis hafi gefið út klínískar leiðbeiningar um skimun gegn ristilkrabbameini, sem hafa verið í gildi síðastliðin 14 ár, hefur enn ekki tekist að koma á skipulagðri leit og hafa heilbrigðisyfirvöld borið fyrir sig mislélegar afsakanir fyrir því fram til þessa.Láttu skoða þig Vitað er að skimun getur dregið úr nýgengi sjúkdómsins um tugi prósenta, allt eftir því hvaða aðferð er notuð og hvaða rannsóknir er stuðst við. Ljóst er að við hefðum getað bjargað ansi mörgum lífum hefði þessum leiðbeiningum verið fylgt. Menn geta deilt um ágæti þeirra og nálgun, en óumdeilt er engu að síður að skimun myndi leiða til verulegs ábata fyrir þjóðfélagið í heild sinni hvað þá heldur fyrir þær fjölskyldur sem þegar hefur verið höggvið skarð í sökum framtaksleysis heilbrigðisyfirvalda. Alþjóðlegar og innlendar leiðbeiningar gera ráð fyrir því að KARLAR og KONUR eftir 50 ára aldur séu í aukinni hættu á að fá ristilkrabbamein og því sé skynsamlegt að miða við þann aldur til að hefja skimun. Þeir sem eiga ættingja sem glímt hafa við slíkan sjúkdóm ættu að byrja í kringum fertugt. Ekki láta blæða úr rassinum á þér, láttu skoða þig! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Teitur Guðmundsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Vissulega dramatískt orðalag og sannarlega einkar óþægileg staða að vera í. Sérstaklega ef maður hefur ekki kennt sér neins meins og veit ekki hvers vegna slíkt ætti að gerast. Þó er þetta býsna algengt vandamál og oft ástæða þess að læknar fá símtal eða viðkomandi leitar á stofu. Í flestum tilvikum er um lítið magn að ræða sem kemur oftar en ekki fram þegar viðkomandi er að skeina sig, smávægilegt smit á pappír og orsökin bundin við gyllinæð eða sár við endaþarm. Öllu alvarlegra er ef það kemur ferskt blóð með hægðum sem er sjáanlegt með berum augum í klósettskálinni. Því geta fylgt verkir og mismikil óþægindi, sumir kenna sér þó einskis meins. Algengara er þó að einhver undanfari hafi verið, almenn líðan verri, aukinn slappleiki og þreyta, mögulega megrun, lystarleysi og nætursviti. Hér er auðvitað um að ræða svokölluð b einkenni sem oft fylgja alvarlegri sjúkdómum eins og til dæmis ristilkrabbameini. Þó fer það mjög eftir aldri hvaða grun læknirinn hefur þegar sjúklingur kvartar samanber lýsinguna hér að ofan. Hjá þeim yngri er líklegra að um ristilbólgusjúkdóma sé að ræða þó þeir geti komið fram á hvaða aldri sem er. Sýkingar og ýmis hastarleg veikindi geta einnig orsakað blæðingar frá ristli. En ef sjúklingurinn er orðinn rúmlega miðaldra er mögulegt að hann geti verið að sýna einkenni um ristilkrabbamein, sem í sumum tilvikum er þá orðið langt gengið og hefur grafið um sig í töluverðan tíma. Mikilvægt er þó að muna að ristilkrabbamein þarf ekki að gefa einkenni um jafnvel margra ára skeið, þess vegna er mikilvægt að skima hjá einkennalausum einstaklingum í skilgreindum áhættuhópum.Svipað hjá báðum kynjum Ég hef um langt skeið verið talsmaður skimunar fyrir ristilkrabbameini með öllum tiltækum ráðum, en núna í mars er alþjóðlegur mánuður um forvarnir gegn slíku meini og er mikilvægt að auka vitund og vitneskju um þann sjúkdóm, ekki síður en önnur krabbamein. Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins til að vekja karla til vitundar um sín kynbundnu mein auk þess að fræða almennt um einkenni krabbameina og vinna að forvörnum. Það er frábært framtak og nauðsynlegt, það skýtur hins vegar skökku við að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á fræðslu, forvarnir og ekki síst skimun gegn ristilkrabbameini en raun ber vitni fyrir BÆÐI kynin á undanförnum árum. Það stendur nú vonandi til bóta. Það er nefnilega svo að ristilkrabbamein er eitt algengasta mein bæði karla og kvenna, tíðni er svipuð hjá báðum kynjum og árlega greinast um 150 einstaklingar. Á hverju ári látast að meðaltali 50 einstaklingar eftir harða baráttu við erfiðan sjúkdóm, sumir langt um aldur fram. Flestar þjóðir í kringum okkur hafa komið á fót skimun hjá einkennalausum einstaklingum, þar sem reynt er að finna meinið á frumstigi. Þannig er það í mörgum tilvikum vel læknanlegt án stórra inngripa og sjúklingurinn þarf ekki að undirgangast skurðaðgerð, lyfja- eða geislameðferð með tilheyrandi aukaverkunum. Þrátt fyrir að embætti Landlæknis hafi gefið út klínískar leiðbeiningar um skimun gegn ristilkrabbameini, sem hafa verið í gildi síðastliðin 14 ár, hefur enn ekki tekist að koma á skipulagðri leit og hafa heilbrigðisyfirvöld borið fyrir sig mislélegar afsakanir fyrir því fram til þessa.Láttu skoða þig Vitað er að skimun getur dregið úr nýgengi sjúkdómsins um tugi prósenta, allt eftir því hvaða aðferð er notuð og hvaða rannsóknir er stuðst við. Ljóst er að við hefðum getað bjargað ansi mörgum lífum hefði þessum leiðbeiningum verið fylgt. Menn geta deilt um ágæti þeirra og nálgun, en óumdeilt er engu að síður að skimun myndi leiða til verulegs ábata fyrir þjóðfélagið í heild sinni hvað þá heldur fyrir þær fjölskyldur sem þegar hefur verið höggvið skarð í sökum framtaksleysis heilbrigðisyfirvalda. Alþjóðlegar og innlendar leiðbeiningar gera ráð fyrir því að KARLAR og KONUR eftir 50 ára aldur séu í aukinni hættu á að fá ristilkrabbamein og því sé skynsamlegt að miða við þann aldur til að hefja skimun. Þeir sem eiga ættingja sem glímt hafa við slíkan sjúkdóm ættu að byrja í kringum fertugt. Ekki láta blæða úr rassinum á þér, láttu skoða þig!