Leiksýning eða ljóðakvöld? Jón Viðar Jónsson skrifar 29. janúar 2014 10:00 Gullna hliðið María Pálsdóttir og Hannes Óli Ágústsson leika Kerlinguna og Jón bónda. Leiklist: Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson hjá Leikfélagi Akureyrar Leikstjóri: Egill Heiðar Anton Pálsson Leikarar: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson, María Pálsdóttir o.fl. Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson Búningar: Helga Mjöll Oddsdóttir Tónlistarflutningur og útsetningar: Hljómsveitin Eva Frumsýning Gullna hliðsins í Iðnó árið 1941 var merkur áfangi í sögu íslenskrar leiklistar. Leikurinn hitti beint í mark í þjóðarhjartanu, sem var ekki síst að þakka aðalleikendum; túlkun þeirra var þróttmikil, blæbrigðarík og fyndin, á einhvern hátt í svo réttum takti við það sérkennilega sambland barnsleika og elskulegrar íróníu sem verkið einkennist af. Góðu heilli var þessi leikur hljóðritaður og hefur glatt mann æ síðan; kannski er upptakan jafnvel þegar komin á vef Útvarpsins þar sem sitthvað gott er að finna. Gullna hliðið hefur oft verið flutt, bæði á sviði og í sjónvarpi, og leikstjórar þá gjarnan reynt að poppa það upp með ýmsum tiltektum. Þær hafa sjaldan borið mikinn árangur. Er það jafnvel svo, að ekki sé lengur hægt að leika þetta verk? Ef satt skal segja er ég hreint ekki viss. Við erum komin svo langt frá sveitasamfélaginu sem þar endurspeglast; við gerum annars konar kröfur til leikhúss og leikritunar en menn gerðu hér fyrir sjötíu árum; viðmiðin eru breytt. Originalitetið er horfið, nema sé bara búið að loka það inni á stofnunum eða þurrka út með öðrum hætti. Jón bóndi hefði löngu verið kominn í meðferð, hefði jafnvel fundið sitt Gullna hlið uppi á Vogi. Svo hafa embættismenn víst flestir tamið sér annan samskiptastíl en merkilegheitin og þurradrambið sem mætir Kerlingunni hjá Lykla-Pétri þegar hún bankar upp á hjá honum með sálina hans Jóns síns í skjóðunni. Enn er þó hægt að hlæja að samtali þeirra fyrir utan dyr Himnaríkis í flutningi Arndísar Björnsdóttur og Vals Gíslasonar og fyrsti þátturinn í kotinu, samtal Kerlingar og Vilborgar grasakonu við dánarbeð Jóns bónda, er líka á sinn hátt magnaður í meðferð Gunnþórunnar gömlu Halldórsdóttur og Arndísar. Milliþættirnir eru erfiðari, einkum sá þriðji, dálítið eins og uppfylling í eyður söguefnisins frá hendi höfundar. Fimmtíu ár eru senn liðin frá andláti skáldsins frá Fagraskógi og Leikfélag Akureyrar minnist þess með uppfærslu Gullna hliðsins. Sviðsetningin er að vonum langt frá öllum natúralisma og gamalli hefð. Baðstofugólfið í litla kotinu lyftist til dæmis upp í öðrum þætti og rís uns það er komið í níutíu gráðu horn við sviðsgólfið; þannig myndar það klettaþilið sem Kerling þarf að klöngrast upp á leið sinni til himna. Með hjálp lýsingar og varpmynda er þetta vel af hendi leyst. Sjálft Gullna hliðið er ekki annað en stafnglugginn á baðstofunni, því að þessi himnaferð er einungis draumur gömlu konunnar við dánarbeð hins miður geðfellda bónda síns; sá er augljóslega skilningur leikstjórans og fylgt skýrt eftir með leikslokunum sem eru hér með talsvert öðrum brag en í texta skáldsins. Þar fagna María mey og englakórar hinum sáluhólpna rustíkusi með fögrum gleðisöng; hér lýkur leiknum á því að lokið er neglt á kistu hans með þungum hamarshöggum – og kerla rís upp og tæmir skjóðuna út um gluggann. Ætli þetta eigi að vera einhver existentíalismus hjá leikstjóranum? Hvað sem líður öllum „lestri“ hans, eða sýn á verkið, þá er það frammistaða leikenda sem sköpum skiptir. Og hún er æði misleit. Leikfélag Akureyrar ræður ekki yfir þeim fjölmenna leikflokki sem leikurinn kallar á, en leikstjórann munar ekki um að stytta hann og laga eftir aðstæðum; fjórir leikarar bera sýninguna uppi ásamt tveggja manna hljómsveitinni Evu sem er alltaf öðru hverju að flytja valin brot úr ljóðum Davíðs, auk þess sem snotur telpnakór kemur við sögu eftir hlé. María Pálsdóttir og Hannes Óli Ágústsson leika Kerlinguna og Jón bónda, Aðalbjörg Árnadóttir og Hilmir Jensson skipta hinum hlutverkunum á milli sín. Val leikenda og ekki síður nýting vekur spurningar; þetta er ungur hópur og, hvað sem öðru líður, óharðnaður. María er auðvitað alltof ung í hlutverk Kerlingar; hún forðast að sönnu alla ýkta takta sem er út af fyrir sig ágætt, en fyrir bragðið verður túlkunin of slétt og felld, litlaus og sviplítil. María er fim í klifrinu, en skortir raddstyrk og sviðsstærð til að fylla húsið; það var á mörkunum ég gæti notið leiks hennar þar sem ég sat á næstaftasta bekk. Hannes Óli er hressilegur Jón bóndi og þarf lítið að hafa fyrir því; í góðum holdum þrátt fyrir allan skortinn sem þau hjón hafa liðið, en vel hægt að skilja að kona leggi margt á sig fyrir slíkan bangsímon. Aðalbjörg fær flest kvenhlutverkin í sinn hlut auk Lykla-Péturs; hún var blátt áfram afleit sem Vilborg grasakona (gat leikstjórinn virkilega ekki hamið hana?) en síðar batnaði hún; var fín sem gamla vinkonan í himnasælunni og líka svolítið spaugilegur Lykla-Pétur. Hilmir var ekkert sérlega demónskur sem Skrattinn; sumir þrjótarnir, á leið niður til Helvítis, tókust betur. Þetta er áferðarsnotur sýning og alltaf notalegt að hlýða á ljóð Davíðs vel flutt við gömul lög og ný. En heildarmyndin verður of sundurleit; blæþýð og angurvær rómantík ljóðanna í flutningi Evu orkar truflandi og stingur óþægilega í stúf við forneskju leiksins, undirliggjandi alvöru hans og ísmeygilegan húmor. Hvað kann að hafa vakað fyrir leikstjóra með þessum uppbrotum, veit ég ekki – nema hann hafi ekki treyst leiknum til að standa á eigin fótum? Davíð var maður tveggja heima, ef ekki fleiri – og sannarlega ekki á allra færi að tengja þá.Niðurstaða: Ásjáleg og vel unnin sýning sem nær, þegar upp er staðið, að skila of litlu af töfrum verksins, barnsleika, dulmögnun og þrá eftir endurlausn. Og hljómsveitin Eva virtist nánast hafa villst inn í sýninguna af kvöldskemmtun á Græna hattinum með rómantísk ástarkvæði Davíðs. Gagnrýni Mest lesið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Leiklist: Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson hjá Leikfélagi Akureyrar Leikstjóri: Egill Heiðar Anton Pálsson Leikarar: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson, María Pálsdóttir o.fl. Leikmynd og lýsing: Egill Ingibergsson Búningar: Helga Mjöll Oddsdóttir Tónlistarflutningur og útsetningar: Hljómsveitin Eva Frumsýning Gullna hliðsins í Iðnó árið 1941 var merkur áfangi í sögu íslenskrar leiklistar. Leikurinn hitti beint í mark í þjóðarhjartanu, sem var ekki síst að þakka aðalleikendum; túlkun þeirra var þróttmikil, blæbrigðarík og fyndin, á einhvern hátt í svo réttum takti við það sérkennilega sambland barnsleika og elskulegrar íróníu sem verkið einkennist af. Góðu heilli var þessi leikur hljóðritaður og hefur glatt mann æ síðan; kannski er upptakan jafnvel þegar komin á vef Útvarpsins þar sem sitthvað gott er að finna. Gullna hliðið hefur oft verið flutt, bæði á sviði og í sjónvarpi, og leikstjórar þá gjarnan reynt að poppa það upp með ýmsum tiltektum. Þær hafa sjaldan borið mikinn árangur. Er það jafnvel svo, að ekki sé lengur hægt að leika þetta verk? Ef satt skal segja er ég hreint ekki viss. Við erum komin svo langt frá sveitasamfélaginu sem þar endurspeglast; við gerum annars konar kröfur til leikhúss og leikritunar en menn gerðu hér fyrir sjötíu árum; viðmiðin eru breytt. Originalitetið er horfið, nema sé bara búið að loka það inni á stofnunum eða þurrka út með öðrum hætti. Jón bóndi hefði löngu verið kominn í meðferð, hefði jafnvel fundið sitt Gullna hlið uppi á Vogi. Svo hafa embættismenn víst flestir tamið sér annan samskiptastíl en merkilegheitin og þurradrambið sem mætir Kerlingunni hjá Lykla-Pétri þegar hún bankar upp á hjá honum með sálina hans Jóns síns í skjóðunni. Enn er þó hægt að hlæja að samtali þeirra fyrir utan dyr Himnaríkis í flutningi Arndísar Björnsdóttur og Vals Gíslasonar og fyrsti þátturinn í kotinu, samtal Kerlingar og Vilborgar grasakonu við dánarbeð Jóns bónda, er líka á sinn hátt magnaður í meðferð Gunnþórunnar gömlu Halldórsdóttur og Arndísar. Milliþættirnir eru erfiðari, einkum sá þriðji, dálítið eins og uppfylling í eyður söguefnisins frá hendi höfundar. Fimmtíu ár eru senn liðin frá andláti skáldsins frá Fagraskógi og Leikfélag Akureyrar minnist þess með uppfærslu Gullna hliðsins. Sviðsetningin er að vonum langt frá öllum natúralisma og gamalli hefð. Baðstofugólfið í litla kotinu lyftist til dæmis upp í öðrum þætti og rís uns það er komið í níutíu gráðu horn við sviðsgólfið; þannig myndar það klettaþilið sem Kerling þarf að klöngrast upp á leið sinni til himna. Með hjálp lýsingar og varpmynda er þetta vel af hendi leyst. Sjálft Gullna hliðið er ekki annað en stafnglugginn á baðstofunni, því að þessi himnaferð er einungis draumur gömlu konunnar við dánarbeð hins miður geðfellda bónda síns; sá er augljóslega skilningur leikstjórans og fylgt skýrt eftir með leikslokunum sem eru hér með talsvert öðrum brag en í texta skáldsins. Þar fagna María mey og englakórar hinum sáluhólpna rustíkusi með fögrum gleðisöng; hér lýkur leiknum á því að lokið er neglt á kistu hans með þungum hamarshöggum – og kerla rís upp og tæmir skjóðuna út um gluggann. Ætli þetta eigi að vera einhver existentíalismus hjá leikstjóranum? Hvað sem líður öllum „lestri“ hans, eða sýn á verkið, þá er það frammistaða leikenda sem sköpum skiptir. Og hún er æði misleit. Leikfélag Akureyrar ræður ekki yfir þeim fjölmenna leikflokki sem leikurinn kallar á, en leikstjórann munar ekki um að stytta hann og laga eftir aðstæðum; fjórir leikarar bera sýninguna uppi ásamt tveggja manna hljómsveitinni Evu sem er alltaf öðru hverju að flytja valin brot úr ljóðum Davíðs, auk þess sem snotur telpnakór kemur við sögu eftir hlé. María Pálsdóttir og Hannes Óli Ágústsson leika Kerlinguna og Jón bónda, Aðalbjörg Árnadóttir og Hilmir Jensson skipta hinum hlutverkunum á milli sín. Val leikenda og ekki síður nýting vekur spurningar; þetta er ungur hópur og, hvað sem öðru líður, óharðnaður. María er auðvitað alltof ung í hlutverk Kerlingar; hún forðast að sönnu alla ýkta takta sem er út af fyrir sig ágætt, en fyrir bragðið verður túlkunin of slétt og felld, litlaus og sviplítil. María er fim í klifrinu, en skortir raddstyrk og sviðsstærð til að fylla húsið; það var á mörkunum ég gæti notið leiks hennar þar sem ég sat á næstaftasta bekk. Hannes Óli er hressilegur Jón bóndi og þarf lítið að hafa fyrir því; í góðum holdum þrátt fyrir allan skortinn sem þau hjón hafa liðið, en vel hægt að skilja að kona leggi margt á sig fyrir slíkan bangsímon. Aðalbjörg fær flest kvenhlutverkin í sinn hlut auk Lykla-Péturs; hún var blátt áfram afleit sem Vilborg grasakona (gat leikstjórinn virkilega ekki hamið hana?) en síðar batnaði hún; var fín sem gamla vinkonan í himnasælunni og líka svolítið spaugilegur Lykla-Pétur. Hilmir var ekkert sérlega demónskur sem Skrattinn; sumir þrjótarnir, á leið niður til Helvítis, tókust betur. Þetta er áferðarsnotur sýning og alltaf notalegt að hlýða á ljóð Davíðs vel flutt við gömul lög og ný. En heildarmyndin verður of sundurleit; blæþýð og angurvær rómantík ljóðanna í flutningi Evu orkar truflandi og stingur óþægilega í stúf við forneskju leiksins, undirliggjandi alvöru hans og ísmeygilegan húmor. Hvað kann að hafa vakað fyrir leikstjóra með þessum uppbrotum, veit ég ekki – nema hann hafi ekki treyst leiknum til að standa á eigin fótum? Davíð var maður tveggja heima, ef ekki fleiri – og sannarlega ekki á allra færi að tengja þá.Niðurstaða: Ásjáleg og vel unnin sýning sem nær, þegar upp er staðið, að skila of litlu af töfrum verksins, barnsleika, dulmögnun og þrá eftir endurlausn. Og hljómsveitin Eva virtist nánast hafa villst inn í sýninguna af kvöldskemmtun á Græna hattinum með rómantísk ástarkvæði Davíðs.
Gagnrýni Mest lesið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira