Magnús Þór Gunnarsson er búinn að taka út sitt tveggja leikja bann og má því spila á ný með Grindavík í kvöld þegar liðið tekur á móti spútnikliði Tindastóls í beinni á Stöð 2 Sport.
Magnús Þór var dæmdur í bannið eftir að hann verið rekinn út úr húsi á móti KR fyrir að brjóta illa á KR-ingnum Brynjari Þór Björnssyni í hraðaupphlaupi.
Magnús Þór missti af tveimur síðustu leikjum Grindavíkurliðsins þar sem liðið tapaði á móti Njarðvík (74-85) og ÍR (85-90).
Magnús Þór er með 12,6 stig og 2,2 stoðsendingar að meðaltali í leik í fimm leikjum í Domios-deild karla í vetur en 63 prósent stiga hans (40 af 63) komu í fyrstu tveimur leikjunum þar sem hann hitti meðal annars úr 9 af 17 þriggja stiga skotum sínum.
Leikur Grindavíkur og Tindastóls er lokaleikur áttundu umferðar og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport í kvöld. Útsendingin hefst klukkan 19.00.
