Stuðningsmenn íslenska landsliðsins, sem verða rúmlega 700 talsins á leiknum gegn Tékklandi í Plzen í kvöld, eru komnir til borgarinnar og byrjaðir að setja sinn svip á miðbæinn.
Fólk kemur víða að en Vísir hitti á hóp íslenskra læknanema sem búa í Slóvakíu. „Við komum í gær öll saman í rútu. Það tók um sjö tíma,“ sagði Elvar Hansson, einn nemanna, við Vísi.
„Þetta var hörkufjör. Við erum öll á sama hótelinu og kíktum aðeins út í gær. Svo í morgun tókum við ferð um Pilsner Urquell-verksmiðjuna.“
Hann á von á hörkuleik á Doosan-leikvanginum í kvöld og reiknar að sjálfsögðu með íslenskum sigri. Hann er þó ekki búinn að læra alla söngva Tólfunnar.
„Við syngum bara með og tröllum. Þetta verður gaman. Svo förum við strax um borð í rútuna eftir leik en hún verður auðvitað mun skemmtilegri ef við vinnum.“
