Sanchez sem byrjaði í fremstu víglínu í fjarveru Olivier Giroud launaði Arsene Wenger traustið með eina marki leiksins undir lok fyrri hálfleiks.
Franski bakvörðurinn Mathieu Debuchy fékk rautt spjald um miðbik seinni hálfleiks en þrátt fyrir að tyrkneska liðið hafi reynt að auka pressuna á heimamönnum náðu þeir ekki að jafna metin og lauk leiknum því með 1-0 sigri Arsenal.
Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir Arsenal og Arsene Wenger en hann hefur komið Arsenal í riðlakeppni Meistaradeildarinnar nú sautján ár í röð.
Í Þýskalandi lék Rúrik Gíslason síðasta hálftímann í 0-4 tapi FC Kaupmannahöfn gegn Bayer Leverkusen. Rúrik er nýkominn af stað á ný eftir að hafa brotið bein í baki.
Á Spáni náði Athletic Bilbao að snúa stöðunni sér í hag í 3-1 sigri á Napoli. Napoli komst yfir snemma leiksins en baskneski klúbburinn náði að snúa taflinu við og tryggja sæti sitt í riðlakeppninni.
Þá vann Malmö óvæntan sigur á Red Bull Salzburg í Svíþjóð í kvöld. Salzburg vann fyrri leik liðanna 2-1 en Malmö komst 2-0 yfir strax í upphafi leiksins í kvöld. Malmö bætti síðan við þriðja marki leiksins og gerði endanlega út um einvígið undir lok venjulegs leiktíma. Malmö verður því meðal keppenda í Meistaradeildinni í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Úrslit kvöldsins:
Arsenal 1-0 Besiktas
Bayer Leverkusen 4-0 FC Kaupmannahöfn
Athletic Bilbao 3-1 Napoli
Malmö 0-3 Red Bull Salzburg
Ludogorets 1-0 Steua Bucuresti(7-6 í vító)



