Vísindaráð Almannavarna ríkislögrelgustjóra og lögregluyfirvöld á Norðurlandi koma saman til fundar klukkan níu til að meta ástand jarðvegs umhverfis Öskjuvatn og öryggi ferðamanna á svæðinu, eftir að gríðar miklar skriður féllu úr hlíðum umhverfis vatnið laust fyrir miðnætti í fyrrakvöld.
Öll umferð að Öskjuvatni hefur verið bönnuð og ræðst á fundinum hvort bannið verður áfram, en vísindamenn voru fram á kvöld í gærkvöldi að meta ástandið. Talið er að allt að 24 milljónir rúmmetra af jarðvegi hafi fallið út í vatnið og valdið flóðbylgju sem náði alveg inn í Víti.
Þá hækkaði vatnsborð Öskjuvatns um um það bil tvo metra eftir skriðufallið, en svo vel vildi til að engin ferðamaður var á svæðinu þegar þetta gerðist.
Þessar hamfarir komu fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar og um tíma sást ljós mökkur stíga upp frá svæðinu. Hlýtt hefur verið á svæðinu og mikil snjóbráð, sem hugsanlega hefur valdilð skriðuföllunum, að mati vísindamanna, sem útiloka ekki enn frekari skriðuföll, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar af svæðinu.
Flóðbylgjan náði inn í Víti

Tengdar fréttir

Öll umferð um Öskju bönnuð í kjölfar skriðu
Öskjubarmurinn getur verið óstöðugur á köflum og meira af lausu efni gæti því fallið í vatnið.