Innlent

Reykjavík síðdegis á kjörstað: „Höfum ekki eytt krónu í framboðið“

Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason skrifar
Þorvaldur fyrir framan heimili sitt í Vesturbæ Reykjavíkur.
Þorvaldur fyrir framan heimili sitt í Vesturbæ Reykjavíkur. Mynd/Kristófer Helgason
„Ég er bjartsýnn á að við fáum svona þokkalega útkomu miðað við það sem okkur hefur verið spáð,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson, oddviti Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík. „Við höfum líka lagt minna undir en hin framboðin að því leyti að við höfum ekki haft neinn starfsmann, við höfum ekki eytt krónu í framboðið.“

Reykjavík síðdegis tók Þorvald máli á heimili sínu sem er í raun kosningaskrifstofa Alþýðufylkingarinnar, eða hvað?

„Það má eiginlega segja það. Þar sem þrír alþýðufylkingarmenn koma saman, þar er kosningaskrifstofa. Er það ekki gamalt máltæki,“ segir Þorvaldur og hlær.

Hann segir að það sé engin spurning að flokkur hans gæti náð árangri til lengri tíma litið.

„Ég hef nú bent á það undanfarið að húsnæðisvandinn í Reykjavík, hann varð ekki til í gær. Hann hefur verið að myndast sérstaklega frá hruni. 

Ég held að okkar afstaða í velferðarmálum sé byrjuð að fá hljómgrunn. Við viljum að velferðarmál snúist ekki bara um það að þegar það er búið að knésetja fólk og beygja það í duftið, þá megi kasta í það ölmusu. Við viljum að velferðarstuðningurinn eigi að koma í veg fyrir skipbrot. Líka að Reykjavík axli þá ábyrgð að skapa alvöru störf.“

Þorvaldur er að lokum spurður: Hvar á skalanum er Alþýðufylkingin? Er hann lengst til vinstri?

„Ég hugsa það,“ segir hann. „Það mætti jafnvel gera því skóna að við séum eini vinstri flokkurinn.“ 

Reykjavík síðdegis er búið að vera á flakki í Reykjavík í dag. Sjá má viðtöl við aðra oddvita í borginni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×