Fótbolti

Simeone: Erum að uppskera þriggja ára vinnu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diego Simeone sendir stuðningsmönnum Atlético fingurkoss á Nývangi um síðustu helgi.
Diego Simeone sendir stuðningsmönnum Atlético fingurkoss á Nývangi um síðustu helgi. Vísi/getty
Diego Simeone mun standa á hliðarlínunni á leikvangi ljóssins í Lissabon á laugardagskvöldið og stýra sínum mönnum í Atlético Madríd í sjálfum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Nýkrýndir Spánarmeistararnir hafa spilað ótrúlega vel sem lið á leiktíðinni en Argentínumaðurinn segir liðið vera að uppskera eins og það hefur sáð undanfarin þrjú ár.

Simeone tók við liðinu árið 2011 og var ekki lengi að láta til sín taka. Það er búið að vinna Evrópudeildina, spænska konungsbikarinn og nú síðast Spánarmeistaratitilinn.

„Það er vinna síðustu þriggja ára sem við erum að uppskera núna,“ segir Simeone í viðtali á vef UEFA.

„Allt frá fremsta manni til markvarðarins, þá vita allir hvað við þurfum að gera og hvernig við þurfum að spila til að sýna styrkleika okkar og fela veikleikana. Við höfum svo sannarlega okkar veikleika en við vonumst bara alltaf til að sýna þá ekki.“

Atlético Madrid mætir samborgurum sínum í Real Madrid í úrslitaleiknum. Þrátt fyrir að vera bæði staðsett í höfuðborg Spánar segir Simeone ekkert líkt með félögunum tveimur.

„Þetta er sögulegur rígur. Það er alveg í frábært í ljósi þess að í einni borg ertu með rosalega öflugt lið í Real Madrid og baráttulið eins og Atlético Madrid. Félögin gætu samt ekki verið ólíkari,“ segir Diego Simeone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×