Þann 25. maí 1977 mætti Rauði herinn, undir stjórn Bobs Paisley, þýska liðinu Borussia Mönchengladbach í úrslitaleik á Ólympíuleikvanginum í Róm, frammi fyrir 57.000 áhorfendum.
Þetta var fyrsti úrslitaleikur beggja liða í Evrópukeppni meistaraliða, en liðin höfðu unnið Evrópukeppni félagsliða tvö árin á undan; Gladbach 1975 og Liverpool 1976. Þá höfðu liðin mæst í úrslitaleik Evrópukeppni félagsliða vorið 1973, þar sem Liverpool hafði betur, 3-2 samanlagt.

Það voru heldur engir aukvissar sem skipuðu lið Liverpool á þessum tíma, en meðal þekktra leikmanna má m.a. nefna Kevin Keegan, fyrirliðann Emlyn Hughes, markvörðinn Ray Clemence og miðjumanninn Ian Callaghan, leikhæsta leikmann í sögu Liverpool.
Bonhof komst nálægt því að skora í byrjun leiks þegar skot hans small í stönginni, en það voru Liverpool-menn sem tóku forystuna á 28. mínútu þegar Terry McDermott skoraði eftir sendingu frá Steve Heighway.
Simonsen jafnaði leikinn á 52. mínútu með glæsilegu skoti upp í markhornið. Skömmu síðar fékk Daninn gott færi til að koma Gladbach yfir, en skallaði framhjá. Clemence varði síðan vel frá Uli Stielike sem hafði komist einn í gegn.

Sigurinn 1977 markaði upphafið að mikilli sigurgöngu Liverpool í Evrópukeppni meistaraliða, en liðið varði titilinn ári síðar eftir 1-0 sigur á Club Brugge í úrslitaleik.
Mark frá Alan Kennedy tryggði Liverpool þriðja Evrópumeistaratitilinn 1981 og þremur árum síðar fögnuðu Bítlaborgardrengirnir titlinum í fjórða sinn eftir sigur á Roma í vítaspyrnukeppni.
Stuðningsmenn Liverpool þurftu að bíða í 21 ár eftir næsta Evrópumeistaratitli, en hann vannst árið 2005 þegar Liverpool lagði AC Milan að velli eftir vítaspyrnukeppni í ótrúlegum úrslitaleik í Istanbúl.