Körfubolti

Jón Axel mögulega á förum frá Grindavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Stefán
Bræðurnir Jón Axel og Ingvi Þór Guðmundssynir eru mögulega á leið til Bandaríkjanna í haust til að spila með menntaskólaliði [e. high school].

Jón Axel, sem verður átján ára síðar á árinu, var lykilmaður í liði Grindavíkur í vetur þrátt fyrir ungan aldur. Ingvi Þór er á sextánda ári og er að klára grunnskólann nú í vor.

Faðir þeirra, Guðmundur Bragason, staðfestir þetta í samtali við Vísi í dag en hann segir enn óljóst hvort af þessu verði.

„Við erum á fullu í samskiptum við nokkra skóla þessa dagana. Þetta kemur væntanlega í ljós öðru megin við helgina,“ sagði Guðmundur. „En það er langlíklegast að þeir fari saman ef af þessu verður.“

Þetta yrði nokkur blóðtaka fyrir lið Grindavíkur enda tveir stórefnilegir leikmenn þar á ferð. Jón Axel spilaði 35 leiki í vetur og skoraði í þeim að meðaltali 6,1 stig í leik. Ingvi kom við sögu í fjórum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×