„Tillagan ásamt fram komnum athugasemdum við hana verði send Rannsóknarsetri í Skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands sem er óháður aðili, til umfjöllunar og ráðgjafar. Þegar að niðurstöður rannsóknarsetursins liggja fyrir mun sveitarstjórn taka endanlega ákvörðun um framvindu málsins,“ segir í samþykkt sveitarstjórnar, sem var samhljóða.

„Óeining er um fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi Ytri Skóga, í nágrenni við Skógafoss. Óeiningin byggir annars vegar á umhverfislegum rökum og hins vegar á rökum sem snúa að hugsanlegri hótel- og þjónustubyggingu sem gert er ráð fyrir í tillögunni.
Til þess að tillagan vinnist með sem allra faglegustum hætti leggur sveitarstjórn til að Rannsóknarsetri í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands verði falið annars vegar að skoða tillöguna að breytingu að deiliskipulagi Ytri Skóga í nágrenni við Skógafoss og hins vegar að leggja mat á þær athugasemdir sem borist hafa vegna tillögunnar. Með þessum hætti viljum við tryggja að fagleg sjónarmið ráði för og að eining náist um málið,“ segir sveitarstjórn Rangárþings eystra.