Það hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum að Pollapönkarar taka þátt á úrslitakvöldi söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva á morgun. Nemendur í þriðja bekk í Rimaskóla tóku forskot á sæluna í dag og sungu lagið góða, Enga fordóma, á táknmáli. Þau höfðu einnig samið dans við lagið byggðan á táknmáli sem þau hafa æft undanfarnar tvær vikurnar.
Afrakstur æfinganna fengu svo samnemendur og fjölskyldur þeirra að sjá í dag. Sýningin var einstaklega vel heppnuð og var hún vel sótt af vinum og ættingjum. Börnin voru flest sammála um að Pollapönkarar ættu sigurinn vísan í keppninni á morgun.
Miðað við þá innlifun og kraft sem krakkarnir lögðu í verkið er nokkuð ljóst að boðskapur lagsins er þeim ansi hugleikinn.
Lag Pollapönkara sungið á táknmáli
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar