Fótbolti

Bayern setur bresk blöð í straff

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Bayern München hefur neitað blaðamönnum frá The Sun og Daily Mirror um aðgang að síðari leik liðsins gegn Manchester United í Meistaradeild Evrópu.

Ástæðan er sú að bæði blöð þóttu gera lítið úr Bastian Schweinsteiger, leikmanni Bayern, með fyrirsögnunum „You dirty Schwein“ og „You Schwein“ á forsíðum blaða sinna eftir fyrri leik liðanna.

Schweinsteiger skoraði þá mark Bayern í 1-1 jafntefli gegn United í fyrri leik liðanna á Old Trafford á þriðjudagskvöld. Hann fékk svo rautt spjald síðar í leiknum vegna tveggja áminninga.

Forráðamenn Bayern segja fyrirsagnirnar bera vott um vanvirðingu, misrétti og persónulega móðgun. Þær séu ekki heldur í takt við í takt við baráttu Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, um að bera eigi virðingu fyrir öllum aðilum leiksins.

Bayern var á dögunum refsað fyrir borða sem áhorfendur voru með á leik liðsins gegn Arsenal í Meistaradeildinni fyrr í vetur.

„Okkur var refsað fyrir þennan borða og gert að greiða sekt og loka hluta stúkunnar. Við tókum þeirri refsingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×