Justin Shouse hefur staðið sig frábærlega í úrslitakeppninni síðustu árin en það verður erfitt að finna betri seríu hjá kappanum en þá sem lauk í gær með dramatískum 94-93 sigri Stjörnumanna í Keflavík.
Shouse var með 37 stig og 10 stoðsendingar í þessum eins stigs sigri þar af átti hann beinan þátt í síðustu tíu stigum Stjörnuliðsins (5 stig og tvær stoðsendingar) þegar Garðabæjarliðið vann upp átta stiga forskot Keflvíkinga á síðustu mínútu leiksins.
Justin Shouse endaði einvígið með 31,0 stig og 9,3 stoðsendingar að meðaltali í leik en hann hitti úr 48 prósent þriggja stiga skota sinna í leikjunum þremur og 82 prósent vítanna.
Þetta er gríðarlegt stökk fyrir Shouse frá deildarleikjunum við Keflavík á tímabilinu þar sem hann var "bara" með 9,0 stig og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik, klikkaði á 10 af 12 þriggja stiga skotum sínum og fékk ekki eitt einasta víti.
Shouse fékk 9,3 víti að meðaltali í leik í þessari seríu, fiskaði samtals 25 villur (8,3 í leik) og hitti úr 14 af 29 þriggja stiga skotum sínum.
Leikir Justin Shouse í 8 liða úrslitum Dominos-deid karla:
Leikur 1: 87-81 sigur á Keflavík í Keflavík
28 stig, 8 stoðsendingar, hitti úr 4 af 8 þriggja stiga skotum
Leikur 2: 98-89 sigur á Keflavík í Garðabæ
28 stig, 10 stoðsendingar, 11 fiskaðar villur
Leikur 3: 94-93 sigur á Keflavík í Keflavík
37 stig, 10 stoðsendingar, hitti úr 7 af 12 þriggja stiga skotum
Svakaleg sería hjá Shouse

Tengdar fréttir

Flautukarfa Marvins | Myndband
Stjarnan vann ævintýralegan sigur á Keflavík í kvöld með flautukörfu frá Marvin Valdimarssyni. Stjarnan komst þar með í undanúrslit Dominos-deildar karla en Garðbæingar unnu rimmuna, 3-0.

Stjörnumenn fyrstir til að slá Keflavík út þrjú ár í röð
Það er kominn sannkölluð Stjörnugrýla í Keflavík eftir að Stjarnan sló Keflavík út í kvöld í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta. Stjörnumenn hafa þar með sent Keflvíkinga snemma í sumarfrí þrjú ár í röð og alltaf í átta liða úrslitunum.

Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Stjarnan 93-94 | Marvin með ótrúlega sigurkörfu
Stjarnan er komin í undanúrslit Dominos-deildar karla eftir að hafa sópað Keflavík, 3-0, í átta liða úrslitunum. Stjarnan vann magnaðan eins stigs sigur í Sláturhúsinu í kvöld.