Spænski framherjinn Jese var borinn snemma af velli í leik Real Madrid gegn Schalke í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Jese hefur verið í stóru hlutverki hjá Real Madrid í vetur en hann meiddist illa á hné snemma leiksins gegn Schalke. Samkvæmt óstaðfestum fregnum ytra er jafnvel óttast að hann hafi slitið krossband í hné.
Jese, sem er 21 árs, hefur skorað fimm mörk í átján deildarleikjum á Spáni til þessa en í síðasta mánuði greindi landsliðsþjálfarinn Vicente del Bosque frá því að Jese kæmi til greina í spænska landsliðið fyrir HM í sumar.
Ef Jese er hins vegar með slitið krossband er ljóst að HM-draumur hans er að engu orðinn.
Fyrr í vetur sleit Sami Khedira, liðsfélagi Jese, krossband í hné en hann bindur enn vonir við að spila með þýska landsliðinu á HM í sumar.
