Fótbolti

Pique: Þurfum núna að sýna heiminum að við erum bestir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerard Pique og Xavi.
Gerard Pique og Xavi. Vísir/Getty
Gerard Pique, varnarmaður Barcelona, er þeirrar skoðunar að liðin óttist ekki lengur Barcelona-liðið en Börsungar mæta Manchester City í kvöld í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Kannski óttast hin liðin okkur ekki lengur af því að við erum ekki búnir að vinna Meistaradeildina undanfarin tvö ár," sagði Gerard Pique í samtali við BBC.

Barcelona lenti illa í því í Meistaradeildinni á síðasta tímabili þegar þýska liðið Bayern Münhcen sló þá út í undanúrslitunum og það samanlagt 7-0.

„Við getum ennþá verið besta liðið en við þurfum núna að sýna heiminum að við erum bestir," sagði Pique. Bayern Münhcen fór síðan alla leið og vann Meistaradeildina.

Gerard Pique segist jafnframt að hann myndi alltaf velja Manchester United yfir Manchester City yrði hann að velja á milli Manchester-liðanna en Pique lék með Manchester United frá 2004 til 2008.

Leikur Manchester City og Barcelona hefst klukkan 19.45 í kvöld og er í beinni á Stöð 2 Sport. Klukkan 19.10 hefst upphitun Hjartar Hjartarsonar fyrir leiki kvöldsins en þá mætast einnig Bayer Leverkusen og Paris Saint Germain.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×