Leikmenn meistaraflokks Þórs í knattspyrnu hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Akureyri vikublaðs þar sem sagt er frá vísbendingum um að sumir leikmannanna hafi veðjað á leik sem þeir sjálfur tóku þátt í gegn Dalvík þann 13. janúar.
Sveinn Elías Jónsson, fyrirliði meistaraflokks, skrifar fyrir hönd leikmannanna og vísar hann öllum ásökunum um veðmál á bug.
„Alvarlegar ásakanir voru bornar á mig og mína liðsmenn í gær í frétt Akureyri vikublaðs. Til þess að svara þessum orðrómi sem af því er virðist heimildarlaus slúðurfrétt staðfesti ég fyrir hönd allra leikmanna Þórs sem voru á leikskýrslu í umræddum leik við uppeldisfélag mitt Dalvík/Reyni að enginn okkar veðjaði á umræddan leik, hvort sem um úrslit eða önnur atvik leiksins ræðir.“
Í yfirlýsingunni segir Sveinn meistaraflokk leggja sig fram við að stunda íþróttina af kappi og standa sig vel, vera yngri iðkenndum góðar fyrirmyndir og vera félaginu og stuðningsmönnum þess til sóma. Fréttin hafi borið mikinn skugga á það.
„Ég vil miðla til fjölmiðla að vanda vinnubrögð sín og hafa staðfestar heimildir fyrir fréttum sem birtar eru í þessum anda, sem virðast aðeins til þess fallnar að mynda fyrirsagnir og hneyksla almenning.“
Í samtali við Vísi í morgun staðfesti Gunnar Jóhannsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, að enginn kæra hefði borist inn á borð lögreglunnar og því yrði ekkert aðhafst í málinu að svo stöddu.
„Það er ekki víst hvort eitthvað ólöglegt hafi átt sér stað í þessu tilviki. Þetta er í raun meira spurning um siðleysi og ekki ljóst hvort einhver lög hafi verið brotin," sagði varðstjórinn.
