ÍR-ingar eru eins og nýtt lið með Nigel Moore innanborðs og þeir sýndu það í kvöld með því að vinna tveggja stiga sigur á Íslandsmeisturum Grindavíkur, 96-94, en Grindavíkurliðið kom á mikilli siglingu í leikinn.
Nigel Moore var með 22 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar fyrir ÍR í kvöld en liðið sem vann aðeins 2 af 11 deildarleikjum fyrir áramót er búið að vinna 3 af 4 leikjum með hann í liðinu.
Matthías Orri Sigurðarson var með 18 stig og 10 stoðsendingar fyrir ÍR í kvöld og Hjalti Friðriksson skoraði 17 stig. Earnest Lewis Clinch yngri skoraði 25 stig og gaf 8 stoðsendingar hjá Grindavík.
Grindavík var 26-23 yfir eftir fyrsta leikhlutann en ÍR-ingar lögðu grunninn að sigrinum með því að vinna annan og þriðja leikhluta með samtals fjórtán stigum, 59-45.
Grindvíkingar komu til baka í lokin en ÍR-ingar voru með sterkar taugar á vítalínunni og tryggðu sér gríðarlega mikilvægan sigur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.
