Cai Zhenhua, fyrrverandi heimsmeistari í borðtennis, hefur tekið við stöðu forseta Knattspyrnusambands Kína. Reuters greinir frá.
Zhenhua, sem vann fjölmörg afrek í borðtennis bæði sem leikmaður og ekki síður sem þjálfari, tekur við stöðunni af hinum 75 ára gamla Yuan Weimin sem gegnt hefur stöðunni í rúman áratug.
Zhenhua gegnir einnig stöðu aðstoðarmanns íþróttamálaráðherra Kínverja. Hann heitir því að koma kínverskri knattspyrnu aftur á kortið.
Karlalandslið þjóðarinnar er án þjálfara eftir að Juan Antonio Camacho var rekinn í júní í kjölfar slæmra úrslita. Dropinn sem fyllti mælinn var 5-1 tap gegn Tælandi. Landsliðið situr í 92. sæti á styrkleikalista FIFA.
