Páll Axel Vilbergsson skoraði sjö þriggja stiga körfur í sigri Skallagríms á Snæfelli í Stykkishólmi í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld.
Páll Axel hefur þar með skorað 964 þriggja stiga körfur í úrvalsdeild og vantar nú aðeins eina þriggja stiga körfu í viðbót til að jafna met Guðjóns Skúlasonar.
Páll Axel hefur raðað niður þriggja stiga körfur í vetur og hefur alls skorað 32 slíkar í þeim tíu leikjum sem hann hefur spilað en það þýðir yfir þrjá þrista að meðaltali í leik.
Það má því búast við að metið falli í Fjósinu í Borgarnesi í næstu viku þegar Skallagrímur tekur á móti Stjörnunni í Dominos-deildinni.
Flestar þriggja stiga körfur í úrvalsdeild karla:
Guðjón Skúlason - 965
Páll Axel Vilbergsson - 964
Teitur Örlygsson - 742
Magnús Þór Gunnarsson - 709
Kristinn Friðriksson - 673
