Innlent

Flughált víða um land

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
mynd/haraldur
Vegagerðin varar við flughálku víða um land. Ófært er á Lyngdalsheiði og er óveður á Kjalarnesi, Mosfellsheiði og víðar í uppsveitum Suðurlands.

Hvasst verður af NA í allan dag og stormur víða á fjallvegum. Hviður um 30-35 m/s á sunnanverðu Snæfellsnesi og í Reykhólasveit og eins upp úr miðjum degi undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Vægur bloti víðast áfram í byggð og við þessar aðstæður verða sumir vegir þar sem klaki er frekar varsamir, flughálir í þetta miklum vindi. Sérstaklega á þetta við norðan- og austanlands, en einnig á útvegum sunnan- og vestanlands. Á fjallvegum er kaldara og þar hríðarmugga og skafrenningur, einkum frá Öxnadalsheiði austur um í Oddsskarð.

Hálka er víðast hvar á Suðurlandi, á Hellisheiði og hálkublettir í Þrengslum. Þá er flughált á Krýsuvíkurvegi og á nokkrum vegum í kringum Hvolsvöll. 

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum, flughált er í vestanverðum Hrútafirði og hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og óveður á Steingrímsfrjarðarheiði og á Þröskuldum. Ófært er frá Bjarnarfirði og norður í Djúpavík á Ströndum.

Þá er hálka og éljagangur á flestum vegum á Norðurlandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og Víkurskarði en einnig er flughált í kringum Húsavík. Ófært er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og ekki verður opnað í dag.

Á Austurlandi er ófært á Vopnafjarðarheiði Fjarðarheið og Vatnsskarði eystra. Þæfingsfærð og skafrenningur er í Oddskarði. Hálka og snjókoma er á Fagradal.  Flughálka er í kringum Vopnafjörð og á öllum leiðum í kringum Egilsstaði. Hálka eða hálkublettir eru svo á öðrum leiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×