Jaleesa Butler var á sínu þriðja tímabili hjá Ágústi og á sínu fjórða tímabili á Íslandi en hún skilaði ekki sömu tölum og á hinum þremur tímabilum sínum í deildinni.
Jaleesa Butler var með 16,7 stig, 11,9 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur en Valsliðið vann aðeins 6 af 14 leikjum sínum fyrir mót eftir að hafa verið spáð Íslandsmeistaratitlinum fyrir mót. Butler átti frábæra innkomu í Valsliðið á miðju síðasta tímabili en þá var hún með 20,4 stig og 15,2 fráköst að meðaltali í leik.
Ágúst er búinn að finna nýjan bandarískan leikmann til þess að fylla skarð Butler en sú spilar ekki sömu stöðu. Butler spilar vanalega nálægt körfunni en nú mun Valsliðið tefla fram bandarískum bakverði.
Anna Martin mun leysa Butler af en Martin útskrifaðist úr DePaul-háskólanum síðasta vor. Martin var með 13,8 stig og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í 127 leikjum með skólanum.
Martin er sjötti stigahæsti leikmaður DePaul-háskólans frá upphafi en hún er enn fremur í 5. sæti yfir flestar þriggja stiga körfur og í 6. sæti yfir flestar stoðsendingar. Anna Martin skoraði tíu stig eða meira í 89 af 127 leikjum sínum með skólanum en hún byrjaði inn á í 116 leikjum.
Anna Martin mun væntanlega spila sinn fyrsta leik með Val þegar liðið heimsækir KR hinn 5. janúar næstkomandi.
