Ofurkjúklingur lækkar flugið Ólafur Þ. Stephensen skrifar 23. nóvember 2013 07:00 Afstaða innlendra kjúklingaframleiðenda til innflutnings á útlendu kjúklingakjöti hefur tekið ánægjulegum breytingum, ef marka má fréttir síðustu daga. Talsmenn stóru verksmiðjubúanna sem framleiða kjúkling ofan í okkur voru lengi vel á móti frjálsum innflutningi á erlendu kjúklingakjöti. Þeir héldu því einkum á lofti að íslenzki kjúklingurinn væri svo miklu heilnæmari og öruggari en útlendir frændur hans og meðal annars þess vegna ætti að viðhalda ofurtollum á innfluttan kjúkling – til að vernda neytendur fyrir hugsanlegum matarsýkingum. Samt gilda strangari reglur um innfluttan kjúkling en innlendan. Hann verður að vera frystur til að koma í veg fyrir kamfýlóbaktersmit og hafa vottorð um að hann sé salmonellufrír. Þegar kamfýlóbakter- og salmonellusýkingar fóru að hrjá íslenzk kjúklingabú fyrir nokkrum árum og ollu kjúklingaskorti neituðu stjórnvöld að rýmka um innflutning á kjúklingi með því að lækka tolla. Þáverandi landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hélt því þá ennþá fram að íslenzki kjúklingurinn væri heilbrigðari en sá útlendi. Þegar sýkingarnar voru farnar að valda stóru framleiðendunum búsifjum, fóru þeir fram á að slakað yrði á heilbrigðisreglum fyrir innlenda framleiðslu og leyft að setja salmonellusýktan kjúkling úr eldishópum á markað með því skilyrði að hann yrði fulleldaður til að drepa bakteríurnar. Því höfnuðu stjórnvöld sem betur fór. Á dögunum olli Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dálitlu uppnámi þegar hann sakaði innlenda kjúklingaframleiðendur um að flytja inn frosinn erlendan kjúkling, þíða hann og selja sem ferskan íslenzkan kjúkling. Neytendasamtökin báru þetta undir kjúklingabúin, sem sóru slíka viðskiptahætti af sér. Það var bara verst að þær yfirlýsingar stönguðust á við viðtal við Jón M. Jónsson, einn af eigendum Ísfugls, á Bylgjunni nokkrum dögum áður. Hann viðurkenndi þar greiðlega að það að þíða kjúkling og umpakka hefði „tíðkast hjá öllum fyrirtækjunum í bransanum“. Svo tók hann fram að Ísfugl ætlaði að hætta þessu. Í framhaldi af gagnrýni þingmannsins hafa allir stóru kjúklingaframleiðendurnir lofað að merkja innlenda kjúklinginn sérstaklega. Innlend kjúklingabú eru á meðal þeirra sem hafa fengið kvóta á lægri tollum til að flytja inn kjúklingakjöt. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi viðurkenndi sölu- og markaðsstjóri Reykjagarðs að innflutti kjúklingurinn væri notaður í unnar matvörur og líka seldur beint til mötuneyta og veitingahúsa. Viðhorfið er augljóslega breytt. Innlendu kjúklingaframleiðendurnir hafa fulla trú á útlenda kjúklingnum, fyrst þeir hafa verið til í að kynna hann fyrir neytendum sem íslenzkan kjúkling og sjá ekkert að því að nota hann í vörur sínar. Þá er hins vegar líka orðið alveg æpandi augljóst að rökin um íslenzka ofurkjúklinginn voru allan tímann tómur fyrirsláttur. Út frá hagsmunum neytenda er bezt að innflutningur á kjúklingakjöti sé frjáls og tollalaus, að sömu ströngu heilbrigðisreglur gildi um innlent kjöt og innflutt og að allar vörur séu merktar rækilega þannig að fólk átti sig á því hvaðan þær koma. Þá hafa neytendur frjálst val og samkeppnin er sanngjörn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Afstaða innlendra kjúklingaframleiðenda til innflutnings á útlendu kjúklingakjöti hefur tekið ánægjulegum breytingum, ef marka má fréttir síðustu daga. Talsmenn stóru verksmiðjubúanna sem framleiða kjúkling ofan í okkur voru lengi vel á móti frjálsum innflutningi á erlendu kjúklingakjöti. Þeir héldu því einkum á lofti að íslenzki kjúklingurinn væri svo miklu heilnæmari og öruggari en útlendir frændur hans og meðal annars þess vegna ætti að viðhalda ofurtollum á innfluttan kjúkling – til að vernda neytendur fyrir hugsanlegum matarsýkingum. Samt gilda strangari reglur um innfluttan kjúkling en innlendan. Hann verður að vera frystur til að koma í veg fyrir kamfýlóbaktersmit og hafa vottorð um að hann sé salmonellufrír. Þegar kamfýlóbakter- og salmonellusýkingar fóru að hrjá íslenzk kjúklingabú fyrir nokkrum árum og ollu kjúklingaskorti neituðu stjórnvöld að rýmka um innflutning á kjúklingi með því að lækka tolla. Þáverandi landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hélt því þá ennþá fram að íslenzki kjúklingurinn væri heilbrigðari en sá útlendi. Þegar sýkingarnar voru farnar að valda stóru framleiðendunum búsifjum, fóru þeir fram á að slakað yrði á heilbrigðisreglum fyrir innlenda framleiðslu og leyft að setja salmonellusýktan kjúkling úr eldishópum á markað með því skilyrði að hann yrði fulleldaður til að drepa bakteríurnar. Því höfnuðu stjórnvöld sem betur fór. Á dögunum olli Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dálitlu uppnámi þegar hann sakaði innlenda kjúklingaframleiðendur um að flytja inn frosinn erlendan kjúkling, þíða hann og selja sem ferskan íslenzkan kjúkling. Neytendasamtökin báru þetta undir kjúklingabúin, sem sóru slíka viðskiptahætti af sér. Það var bara verst að þær yfirlýsingar stönguðust á við viðtal við Jón M. Jónsson, einn af eigendum Ísfugls, á Bylgjunni nokkrum dögum áður. Hann viðurkenndi þar greiðlega að það að þíða kjúkling og umpakka hefði „tíðkast hjá öllum fyrirtækjunum í bransanum“. Svo tók hann fram að Ísfugl ætlaði að hætta þessu. Í framhaldi af gagnrýni þingmannsins hafa allir stóru kjúklingaframleiðendurnir lofað að merkja innlenda kjúklinginn sérstaklega. Innlend kjúklingabú eru á meðal þeirra sem hafa fengið kvóta á lægri tollum til að flytja inn kjúklingakjöt. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi viðurkenndi sölu- og markaðsstjóri Reykjagarðs að innflutti kjúklingurinn væri notaður í unnar matvörur og líka seldur beint til mötuneyta og veitingahúsa. Viðhorfið er augljóslega breytt. Innlendu kjúklingaframleiðendurnir hafa fulla trú á útlenda kjúklingnum, fyrst þeir hafa verið til í að kynna hann fyrir neytendum sem íslenzkan kjúkling og sjá ekkert að því að nota hann í vörur sínar. Þá er hins vegar líka orðið alveg æpandi augljóst að rökin um íslenzka ofurkjúklinginn voru allan tímann tómur fyrirsláttur. Út frá hagsmunum neytenda er bezt að innflutningur á kjúklingakjöti sé frjáls og tollalaus, að sömu ströngu heilbrigðisreglur gildi um innlent kjöt og innflutt og að allar vörur séu merktar rækilega þannig að fólk átti sig á því hvaðan þær koma. Þá hafa neytendur frjálst val og samkeppnin er sanngjörn.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun