Þrír leikir fara fram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Topplið FH heimsækir ÍR-inga í Austurberg klukkan 20.00 og er eitt af þremur félögum sem geta setið í toppsætinu eftir kvöldið.
Hin tvö liðin eru mótherjar þeirra í ÍR og síðan Haukar sem skella sér norður og mæta Akureyri klukkan 19.00 í kvöld.
FH er með eins stigs forskot en jöfn í öðru til fimmta sæti eru Haukar, Fram, ÍBV og ÍR.
ÍBV og Fram mætast í lokaleik umferðarinnar í Eyjum á laugardaginn og þar gæti toppsætið einnig verið í boði falli úrslitin með þeim í kvöld.
Valsmenn enduðu þriggja leikja taphrinu sína í síðasta leik og heimsækja botnlið HK klukkan 19.30 í kvöld.
