Drungi á astralplaninu Jón Viðar Jónsson skrifar 15. október 2013 10:00 "Aðalgallinn við þetta verk Hrafnhildar er sá að það skortir markvissa byggingu, eitthvert innra burðarvirki sem heldur því saman,“ segir Jón Viðar. Leiklist: Sek eftir Hrafnhildi Hagalín hjá Leikfélagi Akureyrar. Leikstjóri: Ingibjörg Huld Haraldsdóttir. Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson, Þráinn Karlsson, Embla Björk Jónsdóttir og Særún Elma Jakobsdóttir. Leikmynd og búningar: Stella Önnudóttir Sigurgeirsdóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist: Þorvaldur Örn Davíðsson. Loftið í sal Samkomuhússins á Akureyri er mettað leikhúsreyk þegar áhorfendur ganga til sætis, en á sviði grillir í fáeinar kyrrstæðar mannverur í rökkrinu. Brátt taka þær til máls og fara að rifja upp sögu sína. Líkast til er þó fullmikið sagt að þær rifji hana upp; það sem þær bera á borð fyrir okkur eru slitur eða brot sem smám saman raðast upp í stærri mynd, aldrei þó verulega skýra. Það birtir heldur aldrei til neinna muna á sviðinu, þokunni léttir aldrei, en í baksýn sér í formlaust hrófatildur, veggmynd sem er stundum lýst fagurlega, og mun eiga að tákna þau hrörlegu híbýli sem fólk þetta hafðist við í á meðan það lifði hér í táradalnum, nöturlegt hlutskipti þess við fátæktarbasl og lánleysi. Sagan er tekin úr heimildum; hún gerðist norður á Sléttu, á fyrri hluta nítjándu aldar, og snýst um fjölskylduharmleik: hórdómsbrot, nauðgun, réttarhöld, upplausn fjölskyldu, Brimarhólmsdóm. Sjarmerandi en æði varasamur vinnumaður kemur á bæinn, lítið heiðarbýli svona eins og þau sem Jón Trausti gerði ódauðleg í bókmenntunum. Maðurinn er hreinasti graðnagli, gæddur dýrslegu aðdráttarafli, og vart að sökum að spyrja hvernig fer: hann dregur húsmóðurina á tálar, nauðgar síðan barnungri dóttur hjónanna, þegar færi gefst. Yfirvöld eru kölluð til, réttur settur og að lokum er fólkinu tvístrað, lífi þess rústað. Þó kemst það aldrei hvert frá öðru, burt úr sögunni, heldur sveimar áfram í þokunni sem nú er eins víst að sé af öðrum heimi, þoka hugans eða jafnvel astralplanið sjálft. Kannski hefur því hægt eitthvað við að rekja raunir sínar í listrænum búningi Hrafnhildar Hagalín á sviði Leikfélags Akureyrar. Aðalgallinn við þetta verk Hrafnhildar er sá að það skortir markvissa byggingu, eitthvert innra burðarvirki sem heldur því saman – og heldur okkur áhorfendunum við efnið. Þó að tilvist persónanna sé stefnulaus og myndin af harmleik þeirra máð og slitin, merkir það ekki að höfundur geti leyft sér að endurskapa það stefnuleysi einfaldlega á sviðinu. Öðru nær: kjósi hann ekki að styðjast við „línulega“ frásögn – sem mér skilst að sumt leikhúsfólk hér á landi álíti mjög gamaldags – verður hann að finna aðra listræna leið, rétt eins og leikskáld á borð við Samuel Beckett eða Jon Fosse hafa gert á sínum leikvöllum, sem manni varð hér stundum hugsað til. Það dugir ekki að leggja persónum til skáldlegt orðfæri, ljóðrænt og á köflum kjarnyrt gamalt sveitamál, og láta þær síðan tala eða öllu heldur kallast á, án nokkurrar tilbreytingar, út í tómið; meira þarf til að fá okkur til að una heila klukkustund í félagsskap þeirra í leikhúsi. Nokkrir dagar geta verið langur tími í pólitík, er stundum sagt; á sama hátt getur einn klukkutími orðið óhemju langur í leikhúsinu. Og þessi klukkutími var óneitanlega orðinn býsna langur, um það er lauk. Leikendur og leikstjóri eru ekki öfundsverðir af því að eiga að blása einhvers konar lífi í þennan einkennilega texta, enda varð þeim lítt ágengt við það. Textameðferðin varð hástemmd og eintóna, einkum hjá þeim Aðalbjörgu Árnadóttur og Hannesi Óla Sigurðssyni sem hvað mest mæðir á í hlutverkum hjónanna; það var helst að Þráni Karlssyni tækist af margreyndri kunnáttu að ljá orðum sínum lifandi blæ. Hjá Aðalbjörgu gætti greinilegrar raddþreytu strax í upphafi, sem er út af fyrir sig skiljanlegt eftir að hafa þurft að nánast hrópa þetta út í loftið vikum saman; Hannes Óli átti hins vegar til að höggva setningarnar mjög undarlega í sundur, svo að um kæk virtist orðið að ræða hjá honum, heldur óskemmtilegan. Við hvoru tveggja hefði leikstjóri þurft að bregðast með einhverjum hætti. Aðalbjörg þyrfti þó trúlega að leita til raddþjálfa með sitt vandamál. Með ásjálegri ljósahönnun í samspili við myndræna litun og teikningu, baksvið og stöður leikfólksins, tókst hér vissulega að seiða fram fallegan dularblæ á sviðinu. Mér kæmi þó mjög á óvart hafi ég verið einn áhorfenda um að freistast til að leggja saman loðin tvö, þegar á leið, og reyna að einbeita mér að því að hlusta á textann. Á sviðinu var hvort eð er ekkert að gerast sem maður þurfti að fylgjast með; þetta hefði eins getað verið útvarpsleikrit. Eða miðilsfundur – með slitróttu sambandi. Að lokum ein spurning: er ekki svolítið skrýtið að vera með bárujárn í baksviðsmyndinni? Bárujárn kom hér ekki til sögunnar fyrr en á ofanverðri nítjándu öld, löngu eftir að þessi saga gerðist. En sjálfsagt er smásmygli að vera að fara fram á slíka nákvæmni við leikmyndateiknarann.Niðurstaða: Doðalegur leikur um ástir og örlög í íslenskum sveitabæ á nítjándu öld sem nær aldrei að hrífa eða vekja áhuga. Gagnrýni Mest lesið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
Leiklist: Sek eftir Hrafnhildi Hagalín hjá Leikfélagi Akureyrar. Leikstjóri: Ingibjörg Huld Haraldsdóttir. Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson, Þráinn Karlsson, Embla Björk Jónsdóttir og Særún Elma Jakobsdóttir. Leikmynd og búningar: Stella Önnudóttir Sigurgeirsdóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Tónlist: Þorvaldur Örn Davíðsson. Loftið í sal Samkomuhússins á Akureyri er mettað leikhúsreyk þegar áhorfendur ganga til sætis, en á sviði grillir í fáeinar kyrrstæðar mannverur í rökkrinu. Brátt taka þær til máls og fara að rifja upp sögu sína. Líkast til er þó fullmikið sagt að þær rifji hana upp; það sem þær bera á borð fyrir okkur eru slitur eða brot sem smám saman raðast upp í stærri mynd, aldrei þó verulega skýra. Það birtir heldur aldrei til neinna muna á sviðinu, þokunni léttir aldrei, en í baksýn sér í formlaust hrófatildur, veggmynd sem er stundum lýst fagurlega, og mun eiga að tákna þau hrörlegu híbýli sem fólk þetta hafðist við í á meðan það lifði hér í táradalnum, nöturlegt hlutskipti þess við fátæktarbasl og lánleysi. Sagan er tekin úr heimildum; hún gerðist norður á Sléttu, á fyrri hluta nítjándu aldar, og snýst um fjölskylduharmleik: hórdómsbrot, nauðgun, réttarhöld, upplausn fjölskyldu, Brimarhólmsdóm. Sjarmerandi en æði varasamur vinnumaður kemur á bæinn, lítið heiðarbýli svona eins og þau sem Jón Trausti gerði ódauðleg í bókmenntunum. Maðurinn er hreinasti graðnagli, gæddur dýrslegu aðdráttarafli, og vart að sökum að spyrja hvernig fer: hann dregur húsmóðurina á tálar, nauðgar síðan barnungri dóttur hjónanna, þegar færi gefst. Yfirvöld eru kölluð til, réttur settur og að lokum er fólkinu tvístrað, lífi þess rústað. Þó kemst það aldrei hvert frá öðru, burt úr sögunni, heldur sveimar áfram í þokunni sem nú er eins víst að sé af öðrum heimi, þoka hugans eða jafnvel astralplanið sjálft. Kannski hefur því hægt eitthvað við að rekja raunir sínar í listrænum búningi Hrafnhildar Hagalín á sviði Leikfélags Akureyrar. Aðalgallinn við þetta verk Hrafnhildar er sá að það skortir markvissa byggingu, eitthvert innra burðarvirki sem heldur því saman – og heldur okkur áhorfendunum við efnið. Þó að tilvist persónanna sé stefnulaus og myndin af harmleik þeirra máð og slitin, merkir það ekki að höfundur geti leyft sér að endurskapa það stefnuleysi einfaldlega á sviðinu. Öðru nær: kjósi hann ekki að styðjast við „línulega“ frásögn – sem mér skilst að sumt leikhúsfólk hér á landi álíti mjög gamaldags – verður hann að finna aðra listræna leið, rétt eins og leikskáld á borð við Samuel Beckett eða Jon Fosse hafa gert á sínum leikvöllum, sem manni varð hér stundum hugsað til. Það dugir ekki að leggja persónum til skáldlegt orðfæri, ljóðrænt og á köflum kjarnyrt gamalt sveitamál, og láta þær síðan tala eða öllu heldur kallast á, án nokkurrar tilbreytingar, út í tómið; meira þarf til að fá okkur til að una heila klukkustund í félagsskap þeirra í leikhúsi. Nokkrir dagar geta verið langur tími í pólitík, er stundum sagt; á sama hátt getur einn klukkutími orðið óhemju langur í leikhúsinu. Og þessi klukkutími var óneitanlega orðinn býsna langur, um það er lauk. Leikendur og leikstjóri eru ekki öfundsverðir af því að eiga að blása einhvers konar lífi í þennan einkennilega texta, enda varð þeim lítt ágengt við það. Textameðferðin varð hástemmd og eintóna, einkum hjá þeim Aðalbjörgu Árnadóttur og Hannesi Óla Sigurðssyni sem hvað mest mæðir á í hlutverkum hjónanna; það var helst að Þráni Karlssyni tækist af margreyndri kunnáttu að ljá orðum sínum lifandi blæ. Hjá Aðalbjörgu gætti greinilegrar raddþreytu strax í upphafi, sem er út af fyrir sig skiljanlegt eftir að hafa þurft að nánast hrópa þetta út í loftið vikum saman; Hannes Óli átti hins vegar til að höggva setningarnar mjög undarlega í sundur, svo að um kæk virtist orðið að ræða hjá honum, heldur óskemmtilegan. Við hvoru tveggja hefði leikstjóri þurft að bregðast með einhverjum hætti. Aðalbjörg þyrfti þó trúlega að leita til raddþjálfa með sitt vandamál. Með ásjálegri ljósahönnun í samspili við myndræna litun og teikningu, baksvið og stöður leikfólksins, tókst hér vissulega að seiða fram fallegan dularblæ á sviðinu. Mér kæmi þó mjög á óvart hafi ég verið einn áhorfenda um að freistast til að leggja saman loðin tvö, þegar á leið, og reyna að einbeita mér að því að hlusta á textann. Á sviðinu var hvort eð er ekkert að gerast sem maður þurfti að fylgjast með; þetta hefði eins getað verið útvarpsleikrit. Eða miðilsfundur – með slitróttu sambandi. Að lokum ein spurning: er ekki svolítið skrýtið að vera með bárujárn í baksviðsmyndinni? Bárujárn kom hér ekki til sögunnar fyrr en á ofanverðri nítjándu öld, löngu eftir að þessi saga gerðist. En sjálfsagt er smásmygli að vera að fara fram á slíka nákvæmni við leikmyndateiknarann.Niðurstaða: Doðalegur leikur um ástir og örlög í íslenskum sveitabæ á nítjándu öld sem nær aldrei að hrífa eða vekja áhuga.
Gagnrýni Mest lesið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira