Fótbolti

Íslendingar á Bernabéu í kvöld

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ragnar Sigurðsson og félagar spila á Spáni.
Ragnar Sigurðsson og félagar spila á Spáni. Mynd/NordicPhotos/Getty
Fjölmargir leikir fara fram í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld en þar ber helst að nefna stórleik Manchester City og Evrópumeistara Bayern München í Manchester.

Manchester City vann ekki leik í keppninni á síðasta tímabili en Bayern München fór aftur á móti alla leið. City byrjaði vel í D-riðlinum og vann Viktoria Plzen í fyrstu umferð og það sama má segja um Þjóðverjana sem fóru illa með CSKA Moskva. Liðin eiga eflaust eftir að berjast um toppsætið í riðlinum. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport & HD.

United mætir Shakhtar Donetsk í Úkraínu og má búast við gríðarlega erfiðum leik fyrir Englandsmeistarana. Liðið tapaði illa fyrir WBA, 2-1, á Old Trafford um helgina og vilja leikmenn liðsins eflaust svara þeim ósigri með góðum úrslitum í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð2 Sport 3.

Real Madrid tekur síðan á móti F.C. København á Bernabéu en í danska liðinu leika þeir Ragnar Sigurðsson og Rúrik Gíslason. Allar líkur eru á því að Iker Casillas verði milli stanganna hjá Real Madrid í leiknum. Casillas hefur verið á varamannabekk liðsins síðustu níu mánuði og hefur Diego Lopez verið aðalmarkvörður Madrídinga. Leikurinn verður í beinni á Stöð2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×