Bíó:
Mistaken For Strangers
Leikstjóri: Tom Berninger
RIFF-hátíðin
Leikstjóri Mistaken For Strangers, Tom Berninger, er yngri bróðir Matts Berninger, söngvara bandarísku hljómsveitarinnar The National.
Í byrjun myndarinnar, árið 2010, er The National á leið í sitt stærsta tónleikaferðalag til þessa. Söngvarinn ákveður af góðmennsku sinni að ráða litla bróður sem aðstoðarmann sveitarinnar á ferðalaginu og notar hann tækifærið og gerir heimildarmynd í leiðinni.
Í myndinni skyggnist Tom á bak við tjöldin hjá þessari vinsælu rokksveit en fyrst og fremst fjallar hún um samband hans við hinn fræga bróður sinn. Matt er sá sem hefur náð langt í lífinu en Tom er kærulaus letingi sem hefur áorkað litlu sem engu.
Gaman er að fylgjast með samskiptum þeirra og greinilegt að litli bróðir á frekar erfitt með að sætta sig við hlutskipti sitt. Þó að myndin risti ekki djúpt er hún áhugaverð og gefur manni ágæta innsýn inn í lífið á tónleikaferðalögum og togstreitu á milli tveggja ólíkra bræðra.
Niðurstaða: Myndin gefur ágæta innsýn inn í lífið á tónleikaferðalögum og togstreitu á milli tveggja bræðra.
