Hvað varð um Guðberg? Jón Viðar Jónsson skrifar 9. september 2013 09:00 "Það jaðrar við að vera afrek að geta búið til slíka flatneskju úr öðrum eins efniviði,” segir Jón Viðar í dómi sínum. LEIKLIST: Eiðurinn eða eitthvað GRAL sýnir í Tjarnarbíói Höfundur: Guðbergur Bergsson Aðlögun og leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson Leikmynd: Eva Vala Guðjónsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson Búningar: Eva Vala Guðjónsdóttir Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson Tónlist: Sölvi Blöndal Hreyfimyndagerð: Una Lorenzen Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Erling Jóhannesson og Benedikt Karl Gröndal Tjarnarbíó byrjar metnaðarfulla vetrardagskrá með nýju leikverki Grindvíska atvinnuleikhússins, Gral, eftir Guðberg Bergsson. Reyndar er leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, einnig skrifaður fyrir „aðlögun“, sem merkir væntanlega að hann hafi eitthvað átt við textann í sviðsetningunni. Að hve miklu leyti það geri hann að meðhöfundi, veit ég auðvitað ekki. Þetta er afar sérkennilegt allt saman. Skáldið sjálft, Guðbergur, er staddur á sviðinu mestallan tímann í stirðlegri eftirhermu Erlings Jóhannessonar sem felst einkum í því að líkja eftir hinum auðkennilegu raddtöktum Guðbergs. Fram eftir leiknum vappar persónan um á föðurlandinu, skáld þurfa vitaskuld að strauja buxurnar sínar eins og annað fólk, svo fer hún í þær. Skáldmenni þetta á í mesta basli við nokkrar persónur úr ósömdum skáldverkum sem vilja fara sínu fram, eins og ekki mun fátítt um slík fóstur hugans; það er gamla sagan um skepnuna sem rís gegn skapara sínum. Í eitt skiptið taka þær sig til, reyra skáldið niður í stól og gera sig líklega til að ganga frá því í eitt skipti fyrir öll; í annað skipti grípur skáldið sjálft til þess óyndisúrræðis að skjóta eina þeirra til bana með skammbyssu sem hann er svo forsjáll að hafa með sér í bréfpoka; en fáir, sem Guðberg þekkja, munu geta trúað öðru eins upp á slíkan öðling sem hann er. Svo er hún þarna enn einu sinni á ferð, blessunin hún Ragnheiður heitin biskupsdóttir, alltaf á sínu eilífðarrandi um skúmaskot og göng Skálholtsstaðar, alveg jafn balstýrug og forðum daga, þó að nú sé það veslings skáldið en ekki Hans Herradómur Brynjólfur Sveinsson sem fær að kenna á óþekktinni. Hvað höfundur, eða höfundar, eru að fara með þessu, hef ég ekki nokkra hugmynd um. Og ég er alveg jafnnær eftir að hafa lesið lærða útleggingu Birnu Bjarnadóttur í leikskránni. Það vantar í þetta alla dramatík, allan safa, alla ástríðu, alla tilfinningakviku. Vitaskuld skoppar eitt og eitt guðbergskt gullkorn þarna með, fyrr mætti nú vera, en þau bjarga, þegar upp er staðið, litlu. Leikmáti og textameðferð eru undarlega einhæf og tilbreytingarlaus, á köflum því líkast sem leikendur séu að stafa sig fram úr óskýru handriti við daufa birtu á fyrsta samlestri. Andríki Guðbergs, leiftrandi húmor hans og háð, þær viturlegu og oft baneitruðu lýsingar á okkar veikluðu þjóðarsál sem hann hefur í áranna rás gefið okkur; þessa alls sér hér næsta lítinn stað. Það jaðrar við að vera afrek að geta búið til slíka flatneskju úr öðrum eins efniviði. Myndasýningarnar, sem renna hjá á baksviðstjaldinu, eru, fyrir utan snotra ljósabeitingu, það besta í sýningunni. Þær eru flottar og stundum snjallar: í upphafi einfaldar natúralískar veggmyndir sem brátt leysast upp í órætt og óhlutbundið samspil lita og forma, en taka líka stundum á sig skýrari mynd; á einum stað þóttist ég jafnvel lesa úr þeim táknræna vísun til þess sem fram fór á sviðinu; það fannst mér vel gert. Leikmyndlist þessi, eins og sumir vilja nefna það, hefði vel getað átt heima í leikverki samboðnu skáldskap Guðbergs Bergssonar, en það er þetta ekki.Niðurstaða: Virðingarverð tilraun til að sýna inn í skáldheim Guðbergs Bergssonar á leiksviði sem skilar því miður ekki tilætluðum árangri. Gagnrýni Mest lesið Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Lífið Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Lífið Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Draumurinn langþráði kostaði hana hjónabandið Lífið Mætti haldast í lokuðu Facebook hópunum Lífið Opið samband fer úrskeiðis Lífið Kaupmálar, framhjáhöld, félagskvíði og engin að tala saman Áskorun Sleppti gallabuxunum þegar hann giftist sinni drottningu Lífið Hafdís leitar að húsnæði Lífið „Bara það að fá að taka þátt er ómetanlegt“ Lífið Fleiri fréttir Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira
LEIKLIST: Eiðurinn eða eitthvað GRAL sýnir í Tjarnarbíói Höfundur: Guðbergur Bergsson Aðlögun og leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson Leikmynd: Eva Vala Guðjónsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson Búningar: Eva Vala Guðjónsdóttir Lýsing: Magnús Arnar Sigurðsson Tónlist: Sölvi Blöndal Hreyfimyndagerð: Una Lorenzen Leikarar: Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sólveig Guðmundsdóttir, Erling Jóhannesson og Benedikt Karl Gröndal Tjarnarbíó byrjar metnaðarfulla vetrardagskrá með nýju leikverki Grindvíska atvinnuleikhússins, Gral, eftir Guðberg Bergsson. Reyndar er leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, einnig skrifaður fyrir „aðlögun“, sem merkir væntanlega að hann hafi eitthvað átt við textann í sviðsetningunni. Að hve miklu leyti það geri hann að meðhöfundi, veit ég auðvitað ekki. Þetta er afar sérkennilegt allt saman. Skáldið sjálft, Guðbergur, er staddur á sviðinu mestallan tímann í stirðlegri eftirhermu Erlings Jóhannessonar sem felst einkum í því að líkja eftir hinum auðkennilegu raddtöktum Guðbergs. Fram eftir leiknum vappar persónan um á föðurlandinu, skáld þurfa vitaskuld að strauja buxurnar sínar eins og annað fólk, svo fer hún í þær. Skáldmenni þetta á í mesta basli við nokkrar persónur úr ósömdum skáldverkum sem vilja fara sínu fram, eins og ekki mun fátítt um slík fóstur hugans; það er gamla sagan um skepnuna sem rís gegn skapara sínum. Í eitt skiptið taka þær sig til, reyra skáldið niður í stól og gera sig líklega til að ganga frá því í eitt skipti fyrir öll; í annað skipti grípur skáldið sjálft til þess óyndisúrræðis að skjóta eina þeirra til bana með skammbyssu sem hann er svo forsjáll að hafa með sér í bréfpoka; en fáir, sem Guðberg þekkja, munu geta trúað öðru eins upp á slíkan öðling sem hann er. Svo er hún þarna enn einu sinni á ferð, blessunin hún Ragnheiður heitin biskupsdóttir, alltaf á sínu eilífðarrandi um skúmaskot og göng Skálholtsstaðar, alveg jafn balstýrug og forðum daga, þó að nú sé það veslings skáldið en ekki Hans Herradómur Brynjólfur Sveinsson sem fær að kenna á óþekktinni. Hvað höfundur, eða höfundar, eru að fara með þessu, hef ég ekki nokkra hugmynd um. Og ég er alveg jafnnær eftir að hafa lesið lærða útleggingu Birnu Bjarnadóttur í leikskránni. Það vantar í þetta alla dramatík, allan safa, alla ástríðu, alla tilfinningakviku. Vitaskuld skoppar eitt og eitt guðbergskt gullkorn þarna með, fyrr mætti nú vera, en þau bjarga, þegar upp er staðið, litlu. Leikmáti og textameðferð eru undarlega einhæf og tilbreytingarlaus, á köflum því líkast sem leikendur séu að stafa sig fram úr óskýru handriti við daufa birtu á fyrsta samlestri. Andríki Guðbergs, leiftrandi húmor hans og háð, þær viturlegu og oft baneitruðu lýsingar á okkar veikluðu þjóðarsál sem hann hefur í áranna rás gefið okkur; þessa alls sér hér næsta lítinn stað. Það jaðrar við að vera afrek að geta búið til slíka flatneskju úr öðrum eins efniviði. Myndasýningarnar, sem renna hjá á baksviðstjaldinu, eru, fyrir utan snotra ljósabeitingu, það besta í sýningunni. Þær eru flottar og stundum snjallar: í upphafi einfaldar natúralískar veggmyndir sem brátt leysast upp í órætt og óhlutbundið samspil lita og forma, en taka líka stundum á sig skýrari mynd; á einum stað þóttist ég jafnvel lesa úr þeim táknræna vísun til þess sem fram fór á sviðinu; það fannst mér vel gert. Leikmyndlist þessi, eins og sumir vilja nefna það, hefði vel getað átt heima í leikverki samboðnu skáldskap Guðbergs Bergssonar, en það er þetta ekki.Niðurstaða: Virðingarverð tilraun til að sýna inn í skáldheim Guðbergs Bergssonar á leiksviði sem skilar því miður ekki tilætluðum árangri.
Gagnrýni Mest lesið Stjörnufans á afmælistónleikum Gunnars Þórðarsonar Lífið Eva og Kári ætla að nýta hverja stund saman Lífið Kynntist eiginkonunni á swingklúbbi Lífið Draumurinn langþráði kostaði hana hjónabandið Lífið Mætti haldast í lokuðu Facebook hópunum Lífið Opið samband fer úrskeiðis Lífið Kaupmálar, framhjáhöld, félagskvíði og engin að tala saman Áskorun Sleppti gallabuxunum þegar hann giftist sinni drottningu Lífið Hafdís leitar að húsnæði Lífið „Bara það að fá að taka þátt er ómetanlegt“ Lífið Fleiri fréttir Barist um arfinn í Borgó Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Sjá meira