Páll Axel er mikill aðdáandi Tiger Woods. Hann þefar uppi allar beinar útsendingar frá þeim mótum sem Woods leikur í en áhuginn dvínar ansi hressilega þegar Woods er ekki með. Páll Axel spáir Woods öruggum sigri á Masters í ár.
„Ég er rosalegur Tiger-maður. Ég sit límdur við skjáinn þegar hann er að keppa. Tiger er búinn að vera í uppsveiflu og hrista af sér persónuleg vandamál. Það mun hjálpa honum að hann tók sér frí fyrir mótið og kemur mjög ferskur og hungraður inn í mótið. Ætli að hann verði ekki með 5-6 högga forystu fyrir lokadaginn og svo klárar þetta örugglega,“ segir Páll Axel, sem á ekki von á óvæntum úrslitum.
„Það getur auðvitað allt gerst og það hafa nöfn unnið þetta mót sem maður hafði aldrei heyrt um. Ég held hins vegar að þetta verði árið hans Tigers. Það verða samt þekkt nöfn í næstu sætum fyrir neðan og kæmi mér ekkert á óvart ef það væru bara stórstjörnur í lokaráshópunum á sunnudag.“

„Það eru mestar líkur á að Tiger vinni þetta. Hann hefur verið frábær í ár og er kominn með blóðið á tennurnar. Það væri auðvelt að veðja á hann. Rory McIlroy gæti einnig náð góðum árangri. Hann varð í öðru sæti um síðustu helgi og þó að hann hafi ekki verið að spila eins vel og í fyrra þá gæti hann alveg unnið. Það eru alveg 25 kylfingar sem koma til greina,“ segir Gunnar. Hann ætlar þó að veðja á sinn uppáhaldskylfing til sigurs í ár.
„Sergio Garcia hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og það er rosalega gaman að sjá hann spila. Hann fór í niðursveiflu fyrir nokkrum árum og virtist ekki hafa sjálfur gaman af þessu. Það er allt annað að sjá til hans núna og hann hefur verið góður síðustu mánuði. Það er kannski frekar óskhyggja en eitthvað annað að hann vinni. Það væri leiðinlega skynsamlegt að veðja á Tiger og því segi ég Garcia.“
Bein útsending frá fyrsta keppnisdeginum á Masters hófst á Stöð 2 Sport HD klukkan 19 í kvöld.