Sakarafskriftir Guðmundur Andri Thorsson skrifar 7. janúar 2013 06:00 Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi fréttamaður, skrifaði grein í Fréttablaðið um daginn þar sem hún segir frá kynnum sínum af Evu Joly og viðrar í framhaldi af því þá skoðun að grundvallarmunur sé á þeim málum sem sérstakur saksóknari rannsakar hér á landi og þeim málum sem Eva rannsakaði í Frakklandi. Þar voru glæpamenn og mafíósar að verki. Og hér? Tja, eiginlega allir ("embættismenn, stjórnmálamenn, blaðamenn, eftirlitsmenn, lífeyrissjóðir, litlir fjárfestar og stórir fjárfestar").Fúsk annarra Kristín lætur á sér skilja að það fólk sem hér hafi verið valið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara, nánast af handahófi, hafi upp til hópa verið vel menntuð en afvegaleidd ungmenni sem hafi gripið til örþrifaráða við að bjarga verðmætum í ástandi sem skapaðist af "fúski" einhverra ótilgreindra "annarra". Kristín minnir á múgæsinguna í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á sínum tíma þegar fjölmiðlar heimtuðu mannblót og fólkið fékk sín afvegaleiddu ungmenni, með hjálp sérfræðings frá Evrópu, og hún nefnir í sömu andrá Evu Joly og hinn þýska Karl Schütz. Skoðanir Kristínar eru á skjön við ríkjandi hugmyndir um ástæður hrunsins og nauðsynlegar aðgerðir til að framfylgja lögum og rétti og skapa einhvers konar hugmynd um sæmd í íslensku viðskiptalífi þar sem orðheldni, ráðdeildarsemi og skilvísi þykja dyggðir fremur en sviksemi, óráðsía og klækiskapur. Það vitnar um hugrekki hjá Kristínu. Það er eitt einkenni á heilbrigðu samfélagi að hægt sé að viðra umdeild sjónarmið án þess að eiga á hættu að fá yfir sig gusur af því tagi sem "virkir í athugasemdum" senda frá sér í þartilgerðum orðabúllum þegar vænsta fólk umhverfist skyndilega eins og virkir alkóhólistar í bullandi neyslu, nema hér nær hömluleysið til orðbragðs; það er nefnilega hægt að vera ofæta á orð líka og stunda orðasukk jafnt sem annað sukk. Það er mikilvægt að við tökumst á um ólík sjónarmið. En þar með er ekki endilega sagt að sérstakur saksóknari eigi bara að hætta þessu og veita sakarafskriftir á línuna, eins og skilningsríkur skilanefndarfursti.Fráleitur samanburður Kristín veitir sök á línuna; leitast við að gera sökina svo almenna að hún þurrkast eiginlega út. Vorum við ekki öll með í þessu? Reyndar ekki. En vert að muna að hér var um árabil hægri stjórn sem trúði á undanbragðalausan óskeikulleika markaðarins. Þegar við búum til óðakapítalisma fáum við yfir okkur óða kapítalista. Og eins og Pálmi í Fons sagði í viðtali í DV: "Við vorum eins og sjómenn í Smugunni" En þeir fyrrum eigendur banka og stórfyrirtækja sem til rannsóknar eru nú voru hvað sem því líður ekki afvegaleidd ungmenni af því tagi sem Kristín Þorsteinsdóttir rifjar upp, með óbragð í munni. Sævar Ciesielski fékk aldrei neitt afskrifað á sinni erfiðu ævi heldur allt margfaldlega í hausinn aftur. Tryggvi Rúnar Leifsson kom engum fjármunum undan til aflandseyja og lifði ekki í vellystingum praktuglega meðan hann beið rannsóknar heldur mátti dúsa í eilífu gæsluvarðhaldi. Erla Bolladóttir gat ekki tafið mál árum saman með fulltingi færustu lögmanna með milljón á tímann – barn var tekið af henni. Þetta voru smælingjar sem voru látnir bera syndir samfélagsins á sínum mjóu herðum og það er óboðlegt að tala í sömu andrá um þungbært hlutskipti þeirra og svo aftur rannsóknir sérstaks saksóknara á fjárdrætti hástéttarmanna og misnotkun á eignarhaldi á heilu bönkunum. Þessir krakkar voru sakaðir um glæp sem aldrei sást framinn, lík fundust ekki, morðvopn, tengsl við þá horfnu, ástæða; ekkert. Landsbankinn og Glitnir, Kaupþing, Milestone, Gift, Sjóvá, Bakkavör, Fons, Samskip, Baugur, World Class, Pelsinn, FL-Group ? allt eru þetta raunveruleg fyrirtæki þar sem raunverulegir gerningar áttu sér stað – og gervifyrirtækin voru meira að segja líka til. Málin sem til rannsóknar eru hjá sérstökum saksóknara kunna að vera vakin af "oflæti" íslensku þjóðarinnar en þau snúast ekki um það heldur meint lögbrot. Málin snúast ekki um blóðþorsta almennings eða fjölmiðla, væntanlegt "fúsk" sérstaks saksóknara eða skapferli dómara (dómari í Vafningsmáli var kallaður "hinn grimmi" í fréttatíma Stöðvar tvö á dögunum, eftir að fallið hafði afar mildur dómur þar) – heldur um þetta: meint lögbrot. Því fyrr sem hægt er að ljúka þeim málum sem til rannsóknar eru þeim mun hraðar er hægt að hreinsa andrúmsloftið í samfélaginu. Það verður ekki hreinsað með gleymsku eða sakarafskriftum. Mannorð verður ekki endurheimt með afskriftum. Meint lögbrot tiltekinna aðila: Menn eru til rannsóknar fyrir stórfelld fjársvik. Við sögu koma upphæðir sem enginn skilur og fjármálagerningar sem virðist þurfa sérfræðinga í skammtafræði til að rýna í. Þessir menn starfa margir enn í viðskiptalífinu eins og ekkert hafi í skorist með nýja kennitölu, hafa á sínum snærum dýrustu málþófsmenn landsins við að þæfa málin enn í þeirri von að þau gleymist, gufi upp, lognist út af í þófinu. Við lesum um afskriftir sem ná til tunglsins og aftur til baka. Slíkar eru upphæðirnar og slíkar voru aðfarirnar í allri þessari miklu fjármálaleikjafræði sem til rannsóknar er – slík var hugkvæmnin – að um það bil síðasta orðið sem hægt er að nota um það er orðið "fúsk". Slíkur var skaðinn fyrir íslensk heimili, íslenskt orðspor, íslenskt þjóðarbú, íslenska sjálfsmynd, að sú tilhugsun er nánast óbærileg að komið verði í veg fyrir eðlilegan framgang réttvísinnar með málþófi og sakarafskriftum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Tengdar fréttir Eva Joly og afkvæmið Nú eru bráðum fjögur ár síðan Eva Joly kom til Íslands til að gefa stjórnvöldum ráð um hvernig ganga skyldi milli bols og höfuðs á meintum fjárglæframönnum eftir bankahrun. Strax kom hún galvösk, með bros á vör í viðtal í sjónvarpi og lýsti yfir sekt manna á báða bóga, meira að segja í einstöku dómsmáli. 3. janúar 2013 08:00 Mest lesið „Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Laumu risinn í landsframleiðslunni Ása Berglind Hjálmarsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Breytum þessari sérhagsmunagæslu Aðalsteinn Leifsson Skoðun Bleiki fíllinn í herberginu Karólína Helga Símonardóttir Skoðun Hæstvirtur dómsmálaráðherra, við ætlumst til meira af þér Matthías Kormáksson Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun
Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi fréttamaður, skrifaði grein í Fréttablaðið um daginn þar sem hún segir frá kynnum sínum af Evu Joly og viðrar í framhaldi af því þá skoðun að grundvallarmunur sé á þeim málum sem sérstakur saksóknari rannsakar hér á landi og þeim málum sem Eva rannsakaði í Frakklandi. Þar voru glæpamenn og mafíósar að verki. Og hér? Tja, eiginlega allir ("embættismenn, stjórnmálamenn, blaðamenn, eftirlitsmenn, lífeyrissjóðir, litlir fjárfestar og stórir fjárfestar").Fúsk annarra Kristín lætur á sér skilja að það fólk sem hér hafi verið valið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara, nánast af handahófi, hafi upp til hópa verið vel menntuð en afvegaleidd ungmenni sem hafi gripið til örþrifaráða við að bjarga verðmætum í ástandi sem skapaðist af "fúski" einhverra ótilgreindra "annarra". Kristín minnir á múgæsinguna í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á sínum tíma þegar fjölmiðlar heimtuðu mannblót og fólkið fékk sín afvegaleiddu ungmenni, með hjálp sérfræðings frá Evrópu, og hún nefnir í sömu andrá Evu Joly og hinn þýska Karl Schütz. Skoðanir Kristínar eru á skjön við ríkjandi hugmyndir um ástæður hrunsins og nauðsynlegar aðgerðir til að framfylgja lögum og rétti og skapa einhvers konar hugmynd um sæmd í íslensku viðskiptalífi þar sem orðheldni, ráðdeildarsemi og skilvísi þykja dyggðir fremur en sviksemi, óráðsía og klækiskapur. Það vitnar um hugrekki hjá Kristínu. Það er eitt einkenni á heilbrigðu samfélagi að hægt sé að viðra umdeild sjónarmið án þess að eiga á hættu að fá yfir sig gusur af því tagi sem "virkir í athugasemdum" senda frá sér í þartilgerðum orðabúllum þegar vænsta fólk umhverfist skyndilega eins og virkir alkóhólistar í bullandi neyslu, nema hér nær hömluleysið til orðbragðs; það er nefnilega hægt að vera ofæta á orð líka og stunda orðasukk jafnt sem annað sukk. Það er mikilvægt að við tökumst á um ólík sjónarmið. En þar með er ekki endilega sagt að sérstakur saksóknari eigi bara að hætta þessu og veita sakarafskriftir á línuna, eins og skilningsríkur skilanefndarfursti.Fráleitur samanburður Kristín veitir sök á línuna; leitast við að gera sökina svo almenna að hún þurrkast eiginlega út. Vorum við ekki öll með í þessu? Reyndar ekki. En vert að muna að hér var um árabil hægri stjórn sem trúði á undanbragðalausan óskeikulleika markaðarins. Þegar við búum til óðakapítalisma fáum við yfir okkur óða kapítalista. Og eins og Pálmi í Fons sagði í viðtali í DV: "Við vorum eins og sjómenn í Smugunni" En þeir fyrrum eigendur banka og stórfyrirtækja sem til rannsóknar eru nú voru hvað sem því líður ekki afvegaleidd ungmenni af því tagi sem Kristín Þorsteinsdóttir rifjar upp, með óbragð í munni. Sævar Ciesielski fékk aldrei neitt afskrifað á sinni erfiðu ævi heldur allt margfaldlega í hausinn aftur. Tryggvi Rúnar Leifsson kom engum fjármunum undan til aflandseyja og lifði ekki í vellystingum praktuglega meðan hann beið rannsóknar heldur mátti dúsa í eilífu gæsluvarðhaldi. Erla Bolladóttir gat ekki tafið mál árum saman með fulltingi færustu lögmanna með milljón á tímann – barn var tekið af henni. Þetta voru smælingjar sem voru látnir bera syndir samfélagsins á sínum mjóu herðum og það er óboðlegt að tala í sömu andrá um þungbært hlutskipti þeirra og svo aftur rannsóknir sérstaks saksóknara á fjárdrætti hástéttarmanna og misnotkun á eignarhaldi á heilu bönkunum. Þessir krakkar voru sakaðir um glæp sem aldrei sást framinn, lík fundust ekki, morðvopn, tengsl við þá horfnu, ástæða; ekkert. Landsbankinn og Glitnir, Kaupþing, Milestone, Gift, Sjóvá, Bakkavör, Fons, Samskip, Baugur, World Class, Pelsinn, FL-Group ? allt eru þetta raunveruleg fyrirtæki þar sem raunverulegir gerningar áttu sér stað – og gervifyrirtækin voru meira að segja líka til. Málin sem til rannsóknar eru hjá sérstökum saksóknara kunna að vera vakin af "oflæti" íslensku þjóðarinnar en þau snúast ekki um það heldur meint lögbrot. Málin snúast ekki um blóðþorsta almennings eða fjölmiðla, væntanlegt "fúsk" sérstaks saksóknara eða skapferli dómara (dómari í Vafningsmáli var kallaður "hinn grimmi" í fréttatíma Stöðvar tvö á dögunum, eftir að fallið hafði afar mildur dómur þar) – heldur um þetta: meint lögbrot. Því fyrr sem hægt er að ljúka þeim málum sem til rannsóknar eru þeim mun hraðar er hægt að hreinsa andrúmsloftið í samfélaginu. Það verður ekki hreinsað með gleymsku eða sakarafskriftum. Mannorð verður ekki endurheimt með afskriftum. Meint lögbrot tiltekinna aðila: Menn eru til rannsóknar fyrir stórfelld fjársvik. Við sögu koma upphæðir sem enginn skilur og fjármálagerningar sem virðist þurfa sérfræðinga í skammtafræði til að rýna í. Þessir menn starfa margir enn í viðskiptalífinu eins og ekkert hafi í skorist með nýja kennitölu, hafa á sínum snærum dýrustu málþófsmenn landsins við að þæfa málin enn í þeirri von að þau gleymist, gufi upp, lognist út af í þófinu. Við lesum um afskriftir sem ná til tunglsins og aftur til baka. Slíkar eru upphæðirnar og slíkar voru aðfarirnar í allri þessari miklu fjármálaleikjafræði sem til rannsóknar er – slík var hugkvæmnin – að um það bil síðasta orðið sem hægt er að nota um það er orðið "fúsk". Slíkur var skaðinn fyrir íslensk heimili, íslenskt orðspor, íslenskt þjóðarbú, íslenska sjálfsmynd, að sú tilhugsun er nánast óbærileg að komið verði í veg fyrir eðlilegan framgang réttvísinnar með málþófi og sakarafskriftum.
Eva Joly og afkvæmið Nú eru bráðum fjögur ár síðan Eva Joly kom til Íslands til að gefa stjórnvöldum ráð um hvernig ganga skyldi milli bols og höfuðs á meintum fjárglæframönnum eftir bankahrun. Strax kom hún galvösk, með bros á vör í viðtal í sjónvarpi og lýsti yfir sekt manna á báða bóga, meira að segja í einstöku dómsmáli. 3. janúar 2013 08:00
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun