Fótbolti

Sigurmark Dortmund á elleftu stundu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lewandowski skorar fyrra mark Dortmund í kvöld.
Lewandowski skorar fyrra mark Dortmund í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Borussia Dortmund tryggði sér efsta sætið í F-riðli Meistaradeildar Evrópu með 2-1 útisigri á Marseille í Frakklandi.

Dortmund varð að vinna sigur þar sem Napólí vann sigur á Arsenal í hinum leik riðilsins á Ítalíu. Ballið byrjaði vel því Robert Lewandowski skoraði snemma leik og útlitið gott.

Heimamenn, sem voru stigalausir fyrir leikinn, jöfnuðu hins vegar metin í fyrri hálfleik með marki Soueymane Diawara.

Dimitri Payet fékk sína seinni áminningu fyrir leikaraskap seint í síðari hálfleik og Þjóðverjarnir manni fleiri það sem eftir lifði leiks.

Frakkarnir héldu út allt þar til á 87. mínútu þegar Kevin Großkreutz skoraði sigurmark þeirra gulklæddu. Markið tryggði þeim efsta sætið í riðlinum en Arsenal fylgir liðinu í öðru sæti riðilsins. Napólí fer í Evrópudeildina þrátt fyrir að hafa 12 stig líkt og hin liðin tvö. Árangur ítalska liðsins í innbyrðisviðureignum liðanna varð liðinu að falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×